Skoðun

Jón Gnarr fyrir dýra­verndina

Árni Stefán Árnason skrifar

Í kosningum hvort, sem er til sveitarstjórnar, þings eða forseta lærði ég þá gullnu reglu af föður mínum heitnum að einblína á áherslur frambjóðenda til ákveðins viðfangsefnis.

Faðir minn var mikill áhugamaður um bindindi. Álíka mikill áhugamaður og ég er um dýravernd.

Ég á fjölda bréfa sem faðir minn skrifaði til frambjóðenda fyrir kosningar þar sem hann spyr þá um áherslur þeirra í bindindismálum.

Þetta er heiðarleg og einlæg spurning, sem er vitnisburður um mann sem vildi standa vörð um lýðheilsu á Íslandi.

Aldrei fékk hann nein svör. Frambjóðendur þorðu ekki að stíga út fyrir rammann gegn þessum mesta vágesti mannkyns.

Ég hef haft sama hátt á varðandi komandi forsetakosningar.

Ég hef margoft spurt frambjóðendur m.a. í vísiskoðun um afstöðu þeirra til dýraverndar. Engin hefur hugrekki til að svara. Engu að síður ,,baða" margir þeirra sig nú í nýfæddum lömbum íklæddir lopapeysum. Ekki veit ég hvaða skilaboð þeir eru að reyna að senda. Hvað koma nýfædd lömb sem enda í sláturhúsi í haust kosningabarráttu við?

Ég hef því reynt að hlera þá afstöðu með öðrum hætti og hlustað á næstum hvert einasta viðtal við frambjóðendur í miðlum, nú síðast Gnarr.

Viðtalið við Jón Gnarr hjá Stöð2 var einlægt og heiðarlegt og það stóð upp úr hvernig hann talaði af eigin frumkvæði um hundinn sinn Klaka, tilfinningar sínar og virðingu gagnvart dýrum.

Það dugði mér til að taka endanlega ákvörðun í komandi forsetakosningum þó Jón Gnarr sé á meðal þeirra sem hafa ekki svarað mér, jafnvel þó ég hafi sent honum þessa spurningu í beina útsendingu í kosningamiðstöð hans. Ég tel að það sé borin von að hjakka áfram í sama farinu að spyrja frambjóðendur um afstöðu þeirra til dýravernda og hvernig þeir myndu beita sér í henni. Þeir virðast ekki hafa hugrekki til að svara því. Áhersla á vernd hinna allra minnstu í samfélagi okkar virðist ekki vera þeim hugleikin.

Höfundur er dýraverndarlögfræðingur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×