Handbolti

Ólafur Gústafs­son aftur heim í FH: „Gleði­dagur fyrir okkur FH-inga“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Gústafsson með Ásgeiri Jónssyni formanni handknattleiksdeildar FH.
Ólafur Gústafsson með Ásgeiri Jónssyni formanni handknattleiksdeildar FH. FH Handbolti

Ólafur Gústafsson hefur samið við FH um að spila með liðinu í Olís deild karla í handbolta á næstu leiktíð.

Ólafur hefur spilað með KA á Akureyri síðan að hann kom heim úr atvinnumennsku fyrir fjórum árum.

Ólafur er 35 ára gamall og 198 sentímetra hár en hann spilar sem vinstri skytta. Hann ætti að styrkja FH liðið sem er nú komið alla leið í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn.

FH-ingar hafa verið að endurheimta sína leikmenn síðustu ár og er þetta framhald á því.

Ólafur er uppalinn hjá Hafnarfjarðarfélaginu og lék með FH alla yngri flokka og upp í meistaraflokk. Ólafur varð Íslandsmeistari með FH-liðinu árið 2011 og gekk til liðs við Flensburg í Þýskalandi í upphafi árs 2012.

Með Flensburg vann Ólafur meðal annars Meistaradeild Evrópu en á atvinnumannaferli sínum lék Ólafur auk þess með Álaborg og Kolding í Danmörku. Ólafur hefur leikið 39 landsleiki fyrir Íslands hönd.

„Það er virkilega ánægjulegt að fá Óla Gúst heim. Við væntum mikils af Óla en hann er stór karakter og með mikla reynslu sem mun nýtast okkur vel innan sem utan vallar. Þetta er gleðidagur fyrir okkur FH-inga og við hlökkum til að sjá hann í hvítu og svörtu næsta vetur,“ sagði Ásgeir Jónsson formaður handknattleiksdeildar FH við miðla félagsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×