Upp­gjör og við­töl: FH - ÍBV 34-27 | Aronslausir FH-ingar tryggðu sér sæti í úr­slitum

Hjörvar Ólafsson skrifar
FH er komið í úrslit Olís-deildar karla í handbolta.
FH er komið í úrslit Olís-deildar karla í handbolta. Vísir/Pawel

FH tryggði sér í kvöld farseðilinn í úrslitaeinvígi Olís-deidar karla í handbolta en liðið komst þangað með sannfærandi sigri á móti ÍBV í oddaleik liðanna í stútfullum Kaplakrika í kvöld.

FH-ingar léku án sinnar skærustu stjörnu, Arons Pálmarssonar, í þessum leik en hann er að glíma við meiðsli í putta og nára. Það var ekki að sjá í þessum leik að fjarvera hans hefði slæm áhrif á heimamenn sem léku við hvurn sinn fingur frá upphafi til enda. 

FH-liðið náði frumkvæðinu strax í upphafi leiksins og komst í 3-0 eftir nokkurra mínútna leik. FH náði svo fimm marka forskoti 9-4 um miðbik fyrri hálfleiks og staðan var 17-13 FH í vil í hálfleik. 

Hafnarfjarðarlðið slakaði aldrei á klónni í seinni hálfleik en það var fyrst og fremst sterk vörn og markvarsla Daníels Freys Andréssonar sem lagði grunninn að þessum sigri. Daníel Freyr varði 16 skot í leiknum þar af þrjú vítaköst. 

Varnarmúr FH-liðsins var þéttur. Vísir/Pawel

Símon Michael Guðjónsson naut góðs af sterkum varnarleik FH-liðsins en hann var markahæstur hjá liðinu með 10 mörk. Ásbjörn Friðriksson sýndi svo gamalkunna takta en hann þurfti að stíga upp í fjarverju Arons. 

Símon Michael Guðjónsson skoraði mörk í öllum regnbogans litum. Vísir/Pawel

Ásbjörn skoraði sex mörk líkt og Birgir Már Birgisson en báðir voru þeir hluti af sterki vörn FH-inga í leiknum. Jóhannes Berg Andrason lagði svo fimm mörk í púkkinn sem og nokkra múrsteina í varnarmúrinn. 

Leikmenn FH náðu að halda Elmari Erlingssyni í skefjum að þessu sinni en þessi frábæri miðjumaður hafði óvenju hægt um sig í þessum leik sökum sterkrar varnar heimaliðsins. Elmar skoraði fimm mörk og var markahæstur hjá Eyjaliðinu ásamt Kára Kristjáni Kristjánssyni. 

Einar Bragi Aðalsteinsson hafði góðar gætur á Elmari Erlingssyni. Vísir/Pawel

Stjörnur og skúrkar

Vörn FH var ógnarstkerk allan tímann og þar fyrir aftan var Daníel Freyr eins og klettur. Á sama tíma náðu Eyjamenn ekki að tengja saman í vörninni og þar af leiðandi tókst Pavel Miscevich og Petar Jokanovic ekki að klukka marga bolta. 

Dómarar leiksins

Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson höfðu einkar góð tök á þessum leik og negldu allar stórar ákvarðanir. Leikur sem hefði hæglega getað einkennst af hita og látum fékk að flæða vel og handboltinn var í fyrirrúmi. Anton Gylfi og Jónas fá níu í einkunn. 

Stemming og umgjörð

Það voru forréttindi að fá að verða vitni af stemmingunni sem stuðningssveitir beggja liða sköpuðu. Kaplakriki var stútfullur og allir sem mættu í kvöld létu vel í sér heyra. Stemmingin var frábær og stuðningsmenn liðanan eiga hrós skilið. 

Fram undan er landsleikjahlé en í kjölfarið á því þurfa Afturelding og Valur að útkljá hvort liðið mætir FH í úrslitum. FH-ingar eru því á leið í pásu en það jákvæða fyrir þá er að þeir fá tíma til þess að Aron nái sér af meiðslum sínum á meðan. 

Þá mun FH endurheimta Jakob Martin Ásgeirsson í úrslitaeinvíginu en hann hefur verið fjarri góðu gamni í síðustu tveimur leikjum vegna leikbanns sem hann hefur nú setið af sér.  

Leikmenn FH fagna sigrinum vel og innilega. Vísir/Pawel

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira