FH tryggði sér í kvöld farseðilinn í úrslitaeinvígi Olís-deidar karla í handbolta en liðið komst þangað með sannfærandi sigri á móti ÍBV í oddaleik liðanna í stútfullum Kaplakrika í kvöld.
FH-ingar léku án sinnar skærustu stjörnu, Arons Pálmarssonar, í þessum leik en hann er að glíma við meiðsli í putta og nára. Það var ekki að sjá í þessum leik að fjarvera hans hefði slæm áhrif á heimamenn sem léku við hvurn sinn fingur frá upphafi til enda.
FH-liðið náði frumkvæðinu strax í upphafi leiksins og komst í 3-0 eftir nokkurra mínútna leik. FH náði svo fimm marka forskoti 9-4 um miðbik fyrri hálfleiks og staðan var 17-13 FH í vil í hálfleik.
Hafnarfjarðarlðið slakaði aldrei á klónni í seinni hálfleik en það var fyrst og fremst sterk vörn og markvarsla Daníels Freys Andréssonar sem lagði grunninn að þessum sigri. Daníel Freyr varði 16 skot í leiknum þar af þrjú vítaköst.

Símon Michael Guðjónsson naut góðs af sterkum varnarleik FH-liðsins en hann var markahæstur hjá liðinu með 10 mörk. Ásbjörn Friðriksson sýndi svo gamalkunna takta en hann þurfti að stíga upp í fjarverju Arons.

Ásbjörn skoraði sex mörk líkt og Birgir Már Birgisson en báðir voru þeir hluti af sterki vörn FH-inga í leiknum. Jóhannes Berg Andrason lagði svo fimm mörk í púkkinn sem og nokkra múrsteina í varnarmúrinn.
Leikmenn FH náðu að halda Elmari Erlingssyni í skefjum að þessu sinni en þessi frábæri miðjumaður hafði óvenju hægt um sig í þessum leik sökum sterkrar varnar heimaliðsins. Elmar skoraði fimm mörk og var markahæstur hjá Eyjaliðinu ásamt Kára Kristjáni Kristjánssyni.

Stjörnur og skúrkar
Vörn FH var ógnarstkerk allan tímann og þar fyrir aftan var Daníel Freyr eins og klettur. Á sama tíma náðu Eyjamenn ekki að tengja saman í vörninni og þar af leiðandi tókst Pavel Miscevich og Petar Jokanovic ekki að klukka marga bolta.
Dómarar leiksins
Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson höfðu einkar góð tök á þessum leik og negldu allar stórar ákvarðanir. Leikur sem hefði hæglega getað einkennst af hita og látum fékk að flæða vel og handboltinn var í fyrirrúmi. Anton Gylfi og Jónas fá níu í einkunn.
Stemming og umgjörð
Það voru forréttindi að fá að verða vitni af stemmingunni sem stuðningssveitir beggja liða sköpuðu. Kaplakriki var stútfullur og allir sem mættu í kvöld létu vel í sér heyra. Stemmingin var frábær og stuðningsmenn liðanan eiga hrós skilið.
Fram undan er landsleikjahlé en í kjölfarið á því þurfa Afturelding og Valur að útkljá hvort liðið mætir FH í úrslitum. FH-ingar eru því á leið í pásu en það jákvæða fyrir þá er að þeir fá tíma til þess að Aron nái sér af meiðslum sínum á meðan.
Þá mun FH endurheimta Jakob Martin Ásgeirsson í úrslitaeinvíginu en hann hefur verið fjarri góðu gamni í síðustu tveimur leikjum vegna leikbanns sem hann hefur nú setið af sér.
