Körfubolti

Baulað á Sixers en liðið kom til baka og komst á­fram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joel Embiid hjá Philadelphia 76ers og Jimmy Butler hjá Miami Heat þakka fyrir leikinn í nótt en Embiid og félagar í Sixers unnu nauman sigur.
Joel Embiid hjá Philadelphia 76ers og Jimmy Butler hjá Miami Heat þakka fyrir leikinn í nótt en Embiid og félagar í Sixers unnu nauman sigur. AP/Chris Szagola

Philadelphia 76ers tryggði sér sæti í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta með eins stigs sigri á Miami Heat í umspilinu í nótt en Miami bíður úrslitaleikur á móti Chicago Bulls um síðasta sætið í úrslitakeppni Austurdeildarinnar.

Philadelphia 76ers vann 105-104 sigur á Miami Heat þökk sé góðum seinni hálfleik. Stuðningsmenn Sixers bauluðu á sína menn eftir fyrri hálfleikinn þar sem Miami var tólf stigum yfir.

Joel Embiid var með 23 stig, 15 fráköst og 5 stoðsendingar. Hann átti stoðsendinguna á Kelly Oubre Jr. sem skoraði stærstu körfuna á lokaksekúndum leiksins. Embiid var lítið áberandi fram eftir leik en var öflugur í lokaleikhlutanum.

„Það var mikið baulað á okkur. Við héldum hópinn. Þetta sýnir bara að þótt að ég spili ekki minn besta leik eða komist ekki í mína stöður fyrr en í fjórða leikhluta þá finnum við samt leið til að vinna,“ sagði Joel Embiid.

Nicolas Batum setti niður sex þriggja stiga körfur og endaði með 20 stig og Tyrese Maxey skoraði 19 stig og gaf 6 stoðsendingar.

Tyler Herro skoraði 25 stig og gaf 9 stoðsendingar hjá Miami en það munaði um að Jimmy Butler meiddist á hné og gat ekki beitt sér að fullu í þremur síðustu leikhlutunum. Butler harkaði af sér og skoraði 19 stig en gæti misst af úrslitaleiknum á föstudaginn.

Með sigrinum tryggði Sixers sér einvígi á móti New York Knicks.

Chicago Bulls tryggði sér úrslitaleik á móti Miami með öruggum 131-116 sigri á Atlanta Hawks en Bulls vann fyrsta leikhlutann 40-22. Coby White var maður kvöldsins en hann skoraði 42 stig sem er það mesta sem hann hefur skorað í einum leik í NBA. Nikola Vucevic bætti við 24 stigum og 12 fráköstum og DeMar DeRozan var með 22 stig og 9 stoðsendingar.

Dejounte Murray var stigahæstur hjá Atlanta með 30 stig en þeir Trae Young og Clint Capela voru báðir með 22 stig. Young var með 10 stoðsendingar en líka 6 tapaða bolta. Capela tók 17 fráköst. Bogdan Bogdanovic skoraði 21 stig.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


×