Körfubolti

Græjaði kjúk­ling fyrir alla með því að klikka á víti

Sindri Sverrisson skrifar
Boban Marjanovic með troðslu í leiknum gegn LA Clippers í gær.
Boban Marjanovic með troðslu í leiknum gegn LA Clippers í gær. AP/Mark J. Terrill

Serbinn Boban Marjanovic tryggði sínum gömlu stuðningsmönnum hjá Los Angeles Clippers frían kjúkling í gærkvöld, með því að klikka vísvitandi á vítaskoti.

Marjanovic lék með Clippers 2018-2019 en í dag leikur þessi tröllvaxni miðherji með Houston Rockets.

Í lokaumferð NBA-deildarinnar í gær var Houston 105-97 yfir þegar Marjanovic fékk tvö vítaskot. Hann klikkaði á fyrra skotinu og við það myndaðist mikil eftirvænting á meðal stuðningsmanna Clippers, því búið var að lofa þeim ókeypis kjúklingamáltíð ef tvö vítaskot mótherja í röð færu í súginn.

Marjanovic áttaði sig á aðstæðum og benti Clippers-fólkinu á að það þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur, hann myndi græja málið. Seinna vítaskotið fór svo á hringinn og áhorfendur fögnuðu ákaft, og Marjanovic gaf skýrt til kynna að hann hefði ætlað sér að klikka.

Í útsendingunni frá leiknum mátti heyra lýsanda grípa þetta á lofti og segja: „Ahh! Hann gaf þeim kjúkling! Hann er maður fólksins! Hann gaf frían kjúkling!“

Þrátt fyrir að vítin hafi farið í súginn þá vann Houston leikinn, 116-105, og endaði tímabilið með 41 sigur og 41 tap. Fyrir leikinn var ljóst að liðið kæmist ekki í úrslitakeppnina.

Clippers enduðu í 4. sæti versturdeildarinnar, með 51 sigur og 31 tap, og mæta Dallas Mavericks í fyrsta einvígi sínu í úrslitakeppninni.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


×