Körfubolti

Kane fær ekki að spila á Króknum

Sindri Sverrisson skrifar
DeAndre Kane verður ekki með Grindavík á mánudaginn og það er vatn á myllu Tindastóls.
DeAndre Kane verður ekki með Grindavík á mánudaginn og það er vatn á myllu Tindastóls. vísir/Vilhelm

Aga- og úrskurðanefnd KKÍ hefur samkvæmt upplýsingum Vísis dæmt DeAndre Kane, leikmann Grindavíkur, í eins leiks bann.

Bann hefur vofað yfir Kane allt frá því að hann þótti láta illa í garð dómara leiksins við Stjörnuna í Garðabæ fyrir hálfum mánuði, í næstsíðustu umferð Subway-deildarinnar í körfubolta.

Niðurstaða í málinu tafðist hins vegar vegna þess að Grindvíkingum var ekki veittur kostur á að andmæla kæru, því tölvupóstur til þeirra fór ekki á rétt netfang.

Upphaflega átti Kane að fara í tveggja leikja bann en nú þegar málið hefur dregist, og Grindvíkingar fengið að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, er niðurstaðan eins leiks bann.

Vegna þess að niðurstaða var ekki komin í málið í gær gat Kane spilað með Grindavík í fyrsta leik liðsins í úrslitakeppninni, þegar það vann afar öruggan sigur á Íslandsmeisturum Tindastóls í Smáranum. Kane var atkvæðamikill með 21 stig, sex stoðsendingar og fimm fráköst í leiknum.

Kane verður hins vegar ekki með í leik tvö í einvíginu, á Sauðárkróki á mánudaginn, en vinna þarf þrjá leiki í einvíginu til að komast í undanúrslit. Mögulega mætir hann því á Krókinn í leik fjögur.

Samkvæmt reglum KKÍ geta Grindvíkingar ekki áfrýjað úrskurðinum, þar sem að bannið er styttra en þrír leikir.

Kane var gefið að sök að hafa gengið ógnandi að dómara í leiknum við Stjörnuna á skírdag, 28. mars, eins og sjá má í myndbandinu hér að ofan, eftir að hann taldi á sér brotið án þess að villa væri dæmd. 

Eftir að leiknum var lokið mun Kane einnig hafa látið niðurlægjandi orð falla í garð dómaranna, en eins og heyra má í myndbandinu segir hann þá vera „fokking skelfilega“ (e. fucking terrible).

Grindavík tapaði leiknum gegn Stjörnunni, 91-90, og er það eina tap liðsins í Subway-deildinni síðan í desember.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×