Körfubolti

Baldur og Ólafur að taka við Stjörnunni

Sindri Sverrisson skrifar
Baldur Þór Ragnarsson og Ólafur Jónas Sigurðsson taka til starfa í Garðabæ frá og með næstu leiktíð.
Baldur Þór Ragnarsson og Ólafur Jónas Sigurðsson taka til starfa í Garðabæ frá og með næstu leiktíð. Samsett/Bára

Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar hefur samkvæmt heimildum Vísis fundið nýja þjálfara fyrir karla- og kvennalið félagsins.

Baldur Þór Ragnarsson mun taka við karlaliði Stjörnunnar og Ólafur Jónas Sigurðsson taka við kvennaliðinu, samvæmt heimildum. Hilmar Júlíusson, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar, vildi hvorki játa þessu né neita en sagði stutt í að tilkynnt yrði um nýja þjálfara félagsins.

Baldur og Ólafur taka við af Arnari Guðjónssyni sem hefur stýrt báðum liðum undanfarin misseri en hættir í vor og hefur þá störf hjá Körfuknattleikssambandi Íslands.

Baldur snýr því heim til Íslands eftir að hafa síðustu tvö ár búið í Þýskalandi og þjálfað hjá Ratiopharm Ulm. Þar hefur hann stýrt yngri flokkum og einnig verið aðstoðarþjálfari aðalliðsins. 

Áður þjálfaði Baldur lið Tindastóls og Þórs Þorlákshafnar í efstu deild hér á landi. Hann hefur einnig verið aðstoðarlandsliðsþjálfari undanfarin ár.

Ólafur Jónas tók sér hlé frá þjálfun eftir síðustu leiktíð, eftir að hafa stýrt kvennaliði Vals til Íslandsmeistaratitils í annað sinn á þremur árum.

Kvennalið Stjörnunnar, sem þar til í desember lék undir stjórn Arnars og Auðar Írisar Ólafsdóttur, endaði í 5. sæti deildakeppni Subway-deildarinnar. Liðið hefur leik í úrslitakeppninni á þriðjudaginn, þegar það sækir Hauka heim í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitunum.

Karlalið Stjörnunnar er hins vegar í harðri baráttu um að komast í úrslitakeppnina og þarf á sigri að halda gegn Breiðabliki í kvöld, auk þess að treysta á að Tindastóll tapi gegn Hamri eða að Höttur vinni Álftanes.


Tengdar fréttir

Arnar Guð­jóns­son: Aðrir sem sjá um að til­kynna það en ég

Arnar Guðjónsson var eðlilega svekktur með 73-77 tap Stjörnunnar gegn Grindavík. Hann kvaðst fullur tilhlökkunar fyrir úrslitakeppnina en taldi liðið ekki eiga mikinn möguleika á titlinum. Eftir tímabilið lætur hann af störfum, en Arnar vildi ekki uppljóstra hver eftirmaður hans verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×