Innlent

Segir fram­boð Katrínar munu leiða til stjórnar­kreppu eða mögu­legs van­hæfis

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Baldur segir framboð Katrínar og mögulegan sigur í forsetakosningunum myndu vekja ýmsar spurningar um hæfi hennar.
Baldur segir framboð Katrínar og mögulegan sigur í forsetakosningunum myndu vekja ýmsar spurningar um hæfi hennar.

Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur og forsetaframbjóðandi, segir framboð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til forseta annað hvort munu fela í sér stjórnarkreppu eða að hún sitji beggja vegna borðsins þegar kemur að myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Samstöðin hefur birt brot úr viðtali við Baldur sem sýnt verður í kvöld en þar spyr hann meðal annars að því hvernig Katrín eigi sem forseti að geta haft aðhald með ríkisstjórninni ef hún situr áfram.

„Þetta er náttúrulega mjög athyglisverð staða að sitjandi forsætisráðherra sé að velta fyrir sér að bjóða sig fram,“ segir Baldur. Hann segist heldur gera ráð fyrir að Katrín bjóði sig fram en ekki. Þá yrði gaman að „takast á við hana“ en hins vegar kitli staðan hann líka sem stjórnmálaskýranda.

„Ef að Katrín Jakobsdóttir býður sig fram til forseta þá er tvennt sem liggur því til grundvallar; annað hvort er hún ekki að gera þetta í samráði við samstarfsflokka sína og þá er ríkisstjórnarsamstarfið í uppnámi og stjórnarkreppa í landinu, eða að hún er að gera þetta í samráði við samstarfsflokka sína og það verður skipt um forsætisráðherra í samráði við hana og samstarfsflokka hennar. Og þá er hún orðinn beinn þátttakandi í myndun þeirrar ríkisstjórnar sem hún ætlar að vera forseti yfir.“

Baldur segist ekki vita hvort sé verra, að sitjandi forsætisráðherra leiði til stjórnarkeppu eða að hún myndi eigin ríkisstjórn sem hún ætli svo að vera yfir.

„Hvernig á hún að geta haft aðhald með verkum meirihluta þingisns eða stjórnvalda? Eða þá að þetta leiði til stjórnarkreppu og stjórnarkrísu, sem er mjög alvarlegur hlutur. Það er mjög alvarlegur hlutur hvað sem okkur finnst um ríkisstjórnina,“ segir Baldur.

„Þetta snýst orðið um eitthvað annað en málefnin eða stöðugleika eða hagsmuni þjóðarinnar. Þetta snýst orðið um eitthvað annað.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×