Körfubolti

Ó­trú­leg mynd sem sýnir breytinguna á NBA-deildinni síðustu tuttugu árin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stephen Curry hefur umturnað því hvernig körfubolti er spilaður.
Stephen Curry hefur umturnað því hvernig körfubolti er spilaður. EPA-EFE/WILL OLIVER

Það má með sanni segja að Stephen Curry hafi umbreytt NBA-deildinni í körfubolta. Síðan hann skaust fram á sjónarsviðið með sínum ótrúlegu þriggja stiga skotum hefur deildin færst meira í þann stíl heldur en það sem áður var.

Kirk Goldsberry, prófessor við háskólann í Texas og tölfræði-gúrú hjá San Antonio Spurs, birti ótrúlega myndir á X-reikningi sínum, áður Twitter. Þar sést svart á hvítu, eða rautt á svörtu í þessu tilfelli, hvernig NBA-deildin hefur breyst undanfarin tuttugu ár.

Tímabilið 2003-04 var skotval leikmanna mun fjölbreyttara en í dag og þá voru flest skot innan þriggja stiga línunnar. Það hefur breyst gríðarlega síðan þá ef marka má skotval leikmanna það sem af er yfirstandandi tímabili.

Nú virðast aðeins tveir möguleikar koma til greina, það eru skot inn í málningunni (e. in the paint) eða fyrir utan þriggja stiga línuna.

Uppgangur Golden State Warriors undir stjórn Steve Kerr með stórskytturnar Stephen Curry og Klay Thompson er talið eiga sinn þátt í að breyta leiknum en liðið varð NBA-meistari 2015, 2017, 2018 og 2022. Ofan á það fór liðið í úrslit 2016 og 2019.

Þeir tveir eru þó komnir til ára sinna en sem stendur er Grayson Allen, leikmaður Phoenix Suns sásem er með bestu þriggja stiga nýtingu NBA-deildarinnar eða 47,8 prósent. Þar á eftir koma Luke Kennard, Jrue Holiday og Norman Powell.

Curry er með 40,3 prósent nýtingu í ár og Thompson er með 38,3 prósent nýtingu. Þó þeir séu komnir á aldur verður ekki annað sagt en þeir hafi hjálpað til við að breyta því hvernig körfubolti er spilaður, allavega í NBA-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×