Skoðun

Blaða­mennska hefur aldrei verið mikil­vægari

Sigríður Dögg Auðunsdóttir skrifar

Þörfin fyrir vandaða blaðamennsku hefur aldrei verið meiri. Upplýsingaóreiða og pólarísering í samfélaginu hefur aukist mikið og sótt er að blaðamönnum og fréttamiðlum með ýmsum hætti. Það þarf að varpa ljósi á hlutverk blaðamanna í samfélaginu og veita innsýn í störf þeirra og vinnubrögð með það fyrir augum að auka skilning fólks á því hvers vegna blaðamennska og frjálsir fjölmiðlar eru forsenda upplýsts samfélags og lýðræðis.

En hvað gera blaðamenn? Jú, blaðamenn draga saman upplýsingar, setja hlutina í samhengi og greiða úr óreiðunni. Þeir koma á framfæri ólíkum sjónarmiðum, setja fram staðreyndir og kanna sannleiksgildi þess sem sagt er. Þá veita þeir aðhald og greina rétt frá röngu. Blaðamenn greina frá staðreyndum og sannreyna upplýsingar og stemma þannig stigu við þeirri upplýsingaóreiðu sem á sér stað í samfélaginu.

Blaðamenn segja frá því sem skiptir okkur sem samfélag máli og án íslenskra blaðamanna væri enginn á vaktinni til að láta vita af því sem gerist hér á landi. Blaðamenn segja frá eldgosum eða kaup og sölu á fyrirtækjum í eigu ríkisins. Blaðamenn segja okkur frá menningu okkar og sigrum. Blaðamenn tala við alls konar fólk til að upplýsa þig og mig um í hvernig samfélagi við búum. Blaðamenn leyfa mörgum röddum að heyrast. Án íslenskrar blaðamennsku væri næstum óhugsandi að búa í íslensku samfélagi.

Við þurfum á öflugri og faglegri blaðamennsku að halda. Við þurfum að þekkja hana og hefja hana til lofts. Blaðamennska er mikilvæg.

Höfundur er formaður Blaðamannafélags Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×