Skoðun

Heimilis­upp­bót – á­skorun til ráð­herra

Alma Ýr Ingólfsdóttir skrifar

ÖBÍ réttindasamtök hafa skorað á félags- og vinnumarkaðsráðherra að bregðast við fordæmisgefandi dómi Hæstaréttar frá því fyrr í mánuðinum sem sneri að afgreiðslu umsókna um heimilisuppbót. Dómurinn var kveðinn upp þann 6. mars og sendi ÖBÍ áskorun til ráðherra í kjölfarið.

Heimilisuppbót

Áður en lengra er haldið er gott að útskýra hvað felst í heimilisuppbót og dóminn sjálfan sömuleiðis.

Heimilisuppbót er, í sem fæstum orðum, viðbót við lífeyrisgreiðslur almannatrygginga fyrir örorku-, endurhæfingar- og ellilífeyristaka sem búa einir á Íslandi. Lífeyristakinn verður að vera einhleypur en má búa með börnum undir 18 ára eða þá ungmennum á milli 18 til 25 ára í námi eða starfsþjálfun.

Fordæmisgefandi dómur

Þá að málinu sjálfu. Dómurinn (í máli nr. 30/2023) sneri að því að einstaklingur hafði sótt um heimilisuppbót og fékk synjun á þeim forsendum að hann var enn skráður í sambúð í Þjóðskrá þrátt fyrir að hafa slitið samvistum við maka nokkrum árum áður. Þá hafði honum verið synjað um leiðréttingu skráningar sinnar þar sem ekki hafði verið greitt úr ágreiningi um forsjá og lögheimili barna þeirra.

Sem sagt, viðkomandi bjó sannarlega einn og raunverulegar aðstæður uppfylltu skilyrði um heimilisuppbót. Skráningin í Þjóðskrá var hins vegar röng.

Niðurstaða Hæstaréttar er í stuttu máli sú að í lögum má finna efnisleg lagaskilyrði um raunverulega félagslega og fjárhagslega stöðu lífeyristaka og hvort hann sé í reynd einn um heimilisrekstur. Tryggingastofnun ríkisins hefði átt að taka tillit til gagna um aðstæður og hagi viðkomandi og skoða stöðu hans heildstætt. Tryggingastofnun var óheimilt að hafna umsókninni einungis vegna skráningarinnar í Þjóðskrá.

En hvað svo?

Hæstiréttur hefur úrskurðað um þetta tiltekna mál og öll sanngjörn skoðun á því leiðir í ljós að dómurinn er fordæmisgefandi. Nokkur hópur einstaklinga er í sambærilegri stöðu og sá sem er til umfjöllunar í dómi Hæstaréttar.

Stjórnvöld þurfa að bregðast við og ekki láta duga að leiðrétta mál þessa eina lífeyristaka. Stjórnvöld mega ekki viðhalda stefnu þar sem ólögmætar synjanir eða skerðingar eru viðhafðar árum saman á þeim sem kerfinu ber að vernda. Því hefur ÖBÍ skorað á ráðherra að grípa til eftirfarandi aðgerða.

  1. Endurskoða þarf framkvæmd Tryggingastofnunar við afgreiðslu umsókna um heimilisafbót. Stofnunin þarf að tryggja að raunverulegar aðstæður umsækjanda verði lagðar til grundvallar og skoða þarf hvort viðkomandi sé raunverulega einn um heimilisrekstur. Tryggja þarf fullnægjandi rannsókn og upplýsingagjöf til umsækjenda.
  2. Endurupptöku er þörf í málum einstaklinga sem hafa sótt um heimilisuppbót en verið synjað á grundvelli opinberrar skráningar. Þá þarf að fara fram uppgjör vangreiddra greiðslna til þeirra sem fengu ranglega synjun.
  3. Ef einstaklingi hefur verið synjað um heimilisuppbót vegna opinberrar skráningar en gögn liggja ekki fyrir um að félagslegar- og fjárhagslegar aðstæður séu með þeim hætti að viðkomandi fullnægi skilyrðum þarf að veita leiðbeiningar um að sá hinn sami gæti átt rétt á endurupptöku og afturvirku uppgjöri. Einnig þarf að veita leiðbeiningar um þau gögn sem leggja má fram til sönnunar stöðu sinnar.

Höfundur er formaður ÖBÍ réttindasamtaka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×