Körfubolti

Maté: At­vinnu­mennirnir gáfust upp í á­hlaupi Hattar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maté Dalmay var óánægður með leik síns liðs í kvöld.
Maté Dalmay var óánægður með leik síns liðs í kvöld. Vísir/Diego

Maté Dalmay, þjálfari Hauka, var afar ósáttur við frammistöðu síns liðs í 93-68 tapi gegn Hetti á Egilsstöðum í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í kvöld. Haukar höfðu ekki að neinu að keppa, áttu hvorki möguleika á sæti í úrslitakeppni né í hættu að falla, meðan Höttur þurfti að vinna til að komast í úrslitakeppnina. Það sást í leiknum.

„Þetta var sorgleg frammistaða. Við höfum ekki að öðru að keppa en stoltinu og körfuboltaferlinu. Við erum greinilega ekki meiri menn en þetta.

Það var andi í liðinu þar til spretturinn kemur hjá Hetti í þriðja leikhluta og við brotnum. Þetta eru leiðinlegar klisjur: förum að reyna að gera hlutina sem einstaklingar frekar en lið. Síðan erum við ömurlegir í körfubolta í kvöld, skjótum 46% í vítum, hittum ekkert og ákvarðanatakan í sókninni hræðileg.“

Maté vonast til að Haukar sýni betri leik gegn Álftanesi eftir tvær vikur. „Við spiluðum sambærilegan leik og þennan gegn Tindastóli fyrir viku og hann var stál í stál í 40 mínútur. Mörg lið í deildinni hafa fengið skelli og síðan átt flotta leiki. Eftir tvær vikur kemur í ljós úr hverju menn eru gerðir.

Tapið í kvöld dæmist ekki á rulluspilarana, þeir áttu kannski ekki góðan dag, en ég horfi á atvinnumennina, þetta byrjar og endar hjá þeim sem gefast upp þótt það sé atvinnan þeirra að spila körfubolta.

Ég vona að við séum það miklir keppnismenn að bæta upp fyrir þetta gegn Álftanes. Það lið þarf, líkt og Höttur, sigur til að komast í úrslitakeppnina. Sá leikur verður góð prófraun á úr hverju einstaklingarnir eru gerðir, hvort þeir mæta litlir eða sýna það stolt að spila körfubolta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×