Körfubolti

Sektaður um nærri fjór­tán milljónir króna fyrir að gera „peninga­merki“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
„Pourquoi?“ er hinn franski Gobert eflaust að spyrja dómarann þegar þessi mynd var tekin.
„Pourquoi?“ er hinn franski Gobert eflaust að spyrja dómarann þegar þessi mynd var tekin. Jason Miller/Getty Images

Rudy Gobert, leikmaður Minnesota Timberwolves, fékk heldur betur að borga fyrir að gera „peningamerki“ með fingrunum í tapi liðsins gegn Cleveland Cavaliers í NBA-deildinni í körfubolta um liðna helgi.

Gobert og félagar máttu þola tap gegn Cleveland í framlengdum leik. Ekki nóg með það heldur virðist leikurinn hafa kostað Gobert hundrað þúsund Bandaríkjadali eða 14 milljónir íslenskra króna.

Eftir að dómarar leiksins dæmdu Gobert ekki i hag gerði hann svokallað „peningamerki“ með fingrunum og fékk tæknivillu í kjölfarið. Nú hefur verið staðfest að hinn franski Gobert hafi verið sektaður duglega fyrir athæfið.

Atvikið átti sér stað í fjórða leikhluta þegar Minnesota var einu stigi yfir. Eins og áður sagði fór leikurinn í framlengingu og þar hafði Cleveland betur. 

Þrátt fyrir að vera ekki dæmdur í leikbann var Gobert hvergi sjáanlegur þegar Minnesota tapaði fyrir Los Angeles Lakers á sunnudagskvöld. Var það fimmta tap liðsins í síðustu tíu leikjum. Minnesota er sem stendur í 3. sæti Vesturdeildar með 44 sigra í 65 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×