Körfubolti

„Ekki alltaf gott að prjóna yfir sig“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hlynur Bæringsson, leikmaður Stjörnunnar, er klár í slaginn í kvöld.
Hlynur Bæringsson, leikmaður Stjörnunnar, er klár í slaginn í kvöld. Vísir/Arnar

Hlynur Bæringsson er fullmeðvitaður um mikilvægi leiks liðs hans Stjörnunnar gegn Hetti í Subway-deild karla í kvöld. Stjarnan þarf sigur í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

Höttur er í áttunda sæti deildarinnar, neðsta sætinu sem veitir keppnisrétt í úrslitakeppninni, en Stjarnan er sæti neðar og hefur unnið einum leik minna. Stjarnan getur því jafnað Hött að stigum með sigri.

„Þetta er bara augljóslega risaleikur. Þetta er ekkert búið þó við töpum, það eru alveg þrír leikir eftir fyrir liðið. Við yrðum samt fjórum stigum á eftir þeim og undir á innbyrðis viðureignum. Þannig að við erum alveg meðvitaðir um það að þetta er mikilvægur leikur og við ætlum að vinna hann,“ segir Hlynur.

Búnir að hreinsa út

Stjarnan hefur tapað fjórum leikjum í röð í deildinni en mæta nú til leiks eftir þriggja vikna pásu vegna landsleikja. Hlynur segir að Stjörnumenn hafi nýtt þann tíma vel.

„Við förum í einhverjar smá taktískar breytingar og við höfðum haft ágætis tíma. Það er bara sama gamla, lykilmenn hjá okkur þurfa að eiga góðan leik og það er pressa á okkur öllum. Við þurfum að spila af aðeins meiri krafti og aðeins meira áhyggjuleysi heldur en við höfum gert, það hefur eitthvað legið á okkur og ég held við séum búnir að hreinsa ýmislegt,“

„Við vorum dálítið þungir fyrir hléið en ég held við mætum sprækari,“ segir Hlynur.

Frítt á völlinn

Frítt er á völlinn í kvöld í boði vængjastaðarins Just Wingin' It og má því búast við fjölmenni á þessum mikilvæga leik. 

„Ég held það verði fjölmennt og verði góð stemning og mikið undir hjá báðum liðum.“

Mætið þið þá ekki dýrvitlausir til leiks?

„Dýrvitlausir, já, já. Vonandi rétt stemmdir, það er ekki alltaf gott að prjóna yfir sig. Bara rétt stemmdir, eigum við ekki orða það þannig frekar.“

Leikur Stjörnunnar og Hattar hefst klukkan 19:15 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5. Hægt er að fylgjast með öllum fimm leikjum kvöldsins samtímis í Subway Skiptiborðinu á Stöð 2 Sport klukkan 19:10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×