Handbolti

Viggó endaði ein­okun Gidsel: Valinn í úr­vals­lið mánaðarins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viggó Kristjánsson stóð sig frábærlega með Leipzig liðinu í febrúar.
Viggó Kristjánsson stóð sig frábærlega með Leipzig liðinu í febrúar. Getty/Hendrik Schmidt

Íslenski landsliðsmaðurinn Viggó Kristjánsson var besta hægri skyttan í bestu deild í heimi í öðrum mánuði ársins.

Viggó var valinn í úrvalslið febrúarmánaðar í þýsku Bundesligunni eftir frábæra frammistöðu sína með Leipzig.

Það vantar ekki samkeppnina í þessari stöðu í deildinni og þessi útnefning því mikill heiður fyrir okkar mann. Viggó endaði með þessu fjögurra mánaða einokun Danans Mathias Gidsel á stöðunni í úrvalsliðinu sem er valið af þýsku deildinni sjálfri.

Viggó skoraði 21 mark í tveimur leikjum sínum í mánuðinum þar af fjórtán mörk á móti Bergischer HC. Í þeim leik var hann einnig með fimm stoðsendingar og kom því með beinum hætti að nítján mörkum liðsins.

Mörkin fjórtán á móti Bergischer voru nýtt félagsmet hjá leikmanni Leipzig í einum leik.

Viggó nýtti 72 prósent skota sinna í þessum tveimur leikjum en hann skoraði sjö mörk á móti Gummersbach.

Aðrir í liði febrúar voru markvörðurinn Domenico Ebner hjá Leipzig, vinstri hornamaðurinn Casper U. Mortensen hjá Hamburg, vinstri skyttan Eric Johansson hjá Kiel, leikstjórnandinn Manuel Zehnder hjá Eisenach, hægri hornamaðurinn Tim Hornke hjá Magdeburg og línumaðurinn Magnus Saugstrup hjá Magdeburg.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×