Körfubolti

Orðin stigahæst hjá báðum kynjum: Skaut Pistol Pete af toppnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caitlin Clark fagnar stigameti sínu í gær.
Caitlin Clark fagnar stigameti sínu í gær. AP/Cliff Jette

Caitlin Clark varð í gær stigahæsti leikmaður í sögu bandaríska háskólakörfuboltans og skiptir þar engu hvort við erum að tala um karla eða konur.

Enginn körfuboltaleikmaður hefur nú skorað fleiri stig í 1. deild bandarísku háskólakörfunnar.

Clark var þegar búin að tryggja sér kvennametið en sló stigamet Pistol Pete Maravich í gær. Maravich skoraði 3667 stig frá 1967 til 1970. Clark er komin með 3.685 stig.

Maravich átti seinna eftir að gera flotta hluti í NBA-deildinni og Clark hefur tilkynnt að hún ætli í nýliðaval WNBA-deildarinnar í vor. Þar þykir nær öruggt að hún verði valin fyrst og þá af Indiana Fever sem á fyrsta valrétt.

Clark vantaði átján stig til að slá metið hans Pistols Pete en skoraði 35 stig í flokkum sigri Iowa skólans á Ohio State auk þess að gefa 9 stoðsendingar á liðsfélaga sína.

Hún jafnaði og bætti metið á vítalínunni undir lok fyrri hálfleiksins en hún skoraði síðan alls sex þrista í leiknum.

Það er nóg fram undan því nú tekur við úrslitakeppnin og Marsæðið þar sem Clark og félagar byrja á því að spila úrslitakeppni Big Ten deildarinnar. Þar er löngu orðið uppselt á leikina enda vilja allir sjá þessa frábæru körfuboltakonu fara á kostum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×