Körfubolti

Franska undrið í sögu­bækurnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Victor Wembanyama skýtur yfir Chet Holmgren. Þessir mögnuðu nýliðar áttust við þegar San Antonio Spurs tók á móti Oklahoma City Thunder  í NBA-deildinni í nótt.
Victor Wembanyama skýtur yfir Chet Holmgren. Þessir mögnuðu nýliðar áttust við þegar San Antonio Spurs tók á móti Oklahoma City Thunder í NBA-deildinni í nótt. getty/Brien Aho

Franski nýliðinn Victor Wembanyama heldur áfram að slá í gegn með San Antonio Spurs í NBA-deildinni í körfubolta. Í nótt afrekaði hann nokkuð sem enginn annar leikmaður í sögu deildarinnar hefur afrekað.

Mikil eftirvænting ríkti fyrir leik San Antonio og Oklahoma City Thunder, eða öllu heldur baráttu nýliðanna Wembanyamas og Chets Holmgren.

Sá síðarnefndi átti fínan leik, skoraði 23 stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar. En hann átti lítið í Wembanyama.

Frakkinn skoraði nefnilega 28 stig, tók þrettán fráköst, gaf sjö stoðsendingar, varði fimm skot og hitti úr fimm af sjö þriggja stiga skotum sínum.

Wembanyama varð þar með sá fyrsti í sögu NBA sem er að minnsta kosti með 25 stig, tíu fráköst, fimm stoðsendingar, fimm varin skot og fimm þriggja stiga körfur í sama leiknum.

San Antonio vann leikinn, 132-118, en þetta var í fyrsta sinn 26 daga sem liðið spilar á heimavelli sínum í Texas. Spurs lenti undir í 4. leikhluta en kom til baka og Wembanyama kláraði svo dæmið þegar mest á reyndi. Hann setti niður þriggja stiga skot þegar tvær mínútur og tíu sekúndur voru eftir og varði síðan skot frá Holmgren tuttugu sekúndum síðar.

Wembanyama hefur verið í miklu stuði að undanförnu og er þriðji leikmaðurinn í sögu NBA til að vera með að minnsta kosti tuttugu stig, tíu fráköst, fimm stoðsendingar og fimm varin skot á sjö leikja kafla frá tímabilinu 1973-74. Hinir sem hafa afrekað það eru Kareem Abdul-Jabbar og David Robinson.

Í vetur er Wembanyama með 20,6 stig, 10,2 fráköst, 3,3 stoðsendingar og 3,3 varin skot að meðaltali í leik.

Þrátt fyrir að vera með Wembanyama í sínum röðum er San Antonio á botni Vesturdeildarinnar með aðeins tólf sigra og 48 töp.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


×