Körfubolti

Butler skartar „emo“ út­litinu í tónlistarmyndbandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kúrekinn Jimmy Butler.
Kúrekinn Jimmy Butler.

Jimmy Butler, leikmaður Miami Heat í NBA-deildinni í körfubolta, skartar athyglisverðu útliti í nýju tónlistarmyndbandi.

Butler hefur vakið athygli fyrir skrítnar hárgreiðslur á fjölmiðladögum NBA. Fyrir tímabilið 2022-23 var hann með „dreadlocks“ fléttur og fyrir þetta tímabilið var hann með svokallað „emo“ útlit. Auk þess að vera með slétt hár var Butler með þrjá hringi í neðri vörinni, hring í nefinu og pinna við augabrúnina.

Butler skartar þessu sama útliti í nýju tónlistarmyndbandi hljómsveitarinnar Fallout Boy, „So Much (For) Stardust“. Til að toppa það er Butler í fjólubláum kúrekafötum með nóg af glimmeri. Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.

Butler og félagar hans í Miami komust í úrslit NBA á síðasta tímabili en töpuðu fyrir Denver Nuggets, 4-1. Miami komst einnig í úrslitin 2020.

Í vetur er Butler með 21,5 stig, 5,5 fráköst og 4,7 stoðsendingar að meðaltali í leik. Miami hefur unnið fimm leiki í röð og er í 5. sæti Austurdeildarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×