Körfubolti

Erfitt ferða­lag Pavel þung­bært: „Þarf mitt svæði og minn frið“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Pavel er hér ásamt Craig Pedersen, landsliðsþjálfara, á hliðarlínunni í höllinni í gær.
Pavel er hér ásamt Craig Pedersen, landsliðsþjálfara, á hliðarlínunni í höllinni í gær. Vísir/Hulda Margrét

Pavel Ermolinskij, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, var nokkuð brattur en þó þreyttur þegar íþróttadeild sló á þráðinn til hans í dag. Gríðarlangur ferðadagur er um hálfnaður hjá Strákunum okkar sem halda til Tyrklands.

Ísland vann fimm stiga sigur á Ungverjalandi í Laugardalshöll í gær og var Pavel ánægður með marga hluta þess leiks og sigurinn liðinu afar mikilvægur. Kristófer Acox var á meðal leikmanna liðsins en hann var ekki með í för er liðið hélt út í morgun. Meiðsli eru að hrjá kappann.

„Hann er bara tæpur í hnénu og í samráði við okkur og læknateymið var talið skynsamlegast að hann færi ekki í þetta ferðalag að svo stöddu. Menn eiga ekki að koma í landsliðið og koma verr út úr því. Það var frábært að hann gat komið og hjálpað okkur í þessum leik í gær og kemur vonandi sterkur inn næst,“ segir Pavel.

Finnur fyrir þreytu hjá mönnum

Landsliðið flaug eldsnemma í morgun til Kaupmannahafnar og lenti þar um klukkan ellefu. Eftir það tók við heillöng bið eftir að menn gætu skráð sig inn í næsta flug en Pavel segir menn hafa rétt verið búna koma sér fyrir á flugstöðinni þegar Vísir sló á þráðinn um klukkan hálf þrjú.

„Þetta er orðið smá erfitt núna. Við vorum að bara að koma inn í flughöfnina núna, við þurftum að tjékka okkur inn og bíða utan hennar fram að því. Núna erum við að fara á eitthvað lounge hérna en maður finnur fyrir smá þreytu hjá mönnum, sérstaklega eftir leikinn í gær. Við erum að fara að lenda seint og svona,“

„Þetta er bara það sem þetta er. Þetta er það sem fylgir því að búa á Íslandi og ferðalögin okkar eru bara svona. En maður kemst í gegnum það,“ segir Pavel.

Dreymir um hótelherbergið

Alls verður liðið í átta klukkutíma á flugvellinum í Kaupmannahöfn áður en tekur við annað langt flug frá Köben til Istanbúl hvar Tyrkir bíða. En hvernig nýta menn tímann í svona löngu stoppi?

„Þetta hefst nú oftast á því að menn spjalla mikið saman, eyða tíma og eru kannski að spila. Svo byrja menn aðeins að fá leið á hver öðrum og fara bara í tölvuna og símann og einangra sig aðeins. Það er yfirleitt þannig sem þetta gengur fyrir sig,“

„Mér sýnist stefna í það núna að menn fari aðeins að kúpla sig út. Það er bara að komast í gegnum þetta flug sem við eigum eftir. Ég er allavega þar, kannski er ég dramatískari heldur en strákarnir,“ segir Pavel og hlær.

„Ég þarf núna mitt svæði, minn frið og einbeita mér að þessu síðasta flugi og dreymir um þetta hótelherbergi sem bíður í Tyrklandi.“


Tengdar fréttir

Utan vallar: Ástæðan fyrir því að Elvar var maður leiksins í gær

Íslenska körfuboltalandsliðið byrjaði undankeppni EM mjög vel í gærkvöldi með endurkomusigri á Ungverjum. Það voru margir að skila til liðsins í gær og því ekki auðvelt að velja mann leiksins. Það var þó andlegur styrkur eins manns sem mér fannst standa upp úr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×