Þetta kom fram í Pallborðinu á Vísi í dag. Aðspurð um hvað íbúar á Völlunum í Hafnarfirði hugsi þegar þeir lesi fréttir um mögulegt hraunrennsli við bæjarfélagið sagði Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði: „Þeir hugsa örugglega ýmislegt.“
„Við ættum að hugsa meira um afleiðingar þess ef sérstök hverfi eða bæjarfélög eru tekin fyrir,“ sagði Rósa. „Pössum umræðuna og pössum yfirlýsingarnar, þær geta alið á ótta.“
Hún tók þó fram að hún væri með þessum orðum ekki að segja að menn væru að reyna að ala á ótta.
Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur á Veðurstofu Íslands, og Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands, voru á sama máli um ábyrgð fjölmiðla í Pallborðinu.
Magnús nefndi dæmi um að stundum hefðu fyrirsagnir ekki endurspeglað það sem viðmælendur, það er að segja jarðvísindamenn, hefðu sagt.
„Þið á Vísi. Þið eruð ekki aðalsökudólgarnir,“ sagði hann.
Hönnun tímabær en ekki uppbygging
Talsvert hefur verið rætt um möguleika á gosi við Hafnarfjörð. Rósa sagði að hún vilji fá heildstætt mat frá sérfræðingum um svæðið. „Ég vil fá að vita hverju er hægt að eiga vona á, bæði í nánustu framtíð og til lengri tíma litið.“
Hún nefndi að hönnun á varnargörðum við höfuðborgarsvæðið væri mikils virði. Þó væri ekki tilefni til að hefja uppbyggingu á varnargörðum fyrr en á því sé þörf.
Magnús Tumi tók í sama streng. Hann útskýrði að það myndi að öllum líkindum taka talsverðan tíma fyrir sprungu að koma á yfirborðið.
Hann sagði að umfangsmikil uppbygging varnargarða við Hafnarfjörð, eða önnur svæði á höfuðborgarsvæðinu, væri ótímabær. Hins vegar væri sniðugt að hanna þá.