Handbolti

Sigur Hauka aldrei í hættu gegn Stjörnunni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Margrét Einarsdóttir átti góðan leik í marki Hauka
Margrét Einarsdóttir átti góðan leik í marki Hauka Vísir/Hulda Margrét

Fyrsti leikur 15. umferðar Olís deildar kvenna fór fram í kvöld þegar Stjarnan tók á móti Haukum í Mýrinni í Garðabæ. Gestirnir unnu leikinn örugglega, lokatölur 21-36.

Haukar minnka forskot Vals niður í tvö stig með þessum sigri. Valskonur sitja í efsta sætinu með 26 stig og eiga leik til góða á föstudag þegar þær taka á móti Fram, sem situr í 3. sæti deildarinnar með 20 stig.

Stjarnan situr enn í 7. sæti deildarinnar með 5 stig, jafnmörg og Þór/KA í neðsta sætinu.

Haukar höfðu yfirburði frá fyrstu mínútu gegn Stjörnunni í kvöld. Þær komust fljótt þremur mörkum yfir og brunuðu svo enn frekar fram úr um miðjan fyrri hálfleik áður en Stjörnukonum tókst að stöðva blæðinguna.

Það munaði fjórum mörkum milli liðanna þegar gengið var út í seinni hálfleik en innan örfárra mínútna höfðu Haukar breikkað bilið aftur og tekið öll völd í leiknum.

Margrét Einarsdóttir gerði vel að halda Stjörnukonum frá marki Hauka, hún varði 14 skot af 34. Sara Odden var markahæst í liði Hauka með 8 mörk. Í liði Stjörnunnar var það Eva Björk Davíðsdóttir sem leiddi markaskorun með 7 mörk.

Næstu leikir í umferðinni fara fram á föstudag og laugardag. Í næstu umferð fara Haukakonur til Vestmannaeyja og mæta ÍBV á meðan Stjarnan heimsækir Aftureldingu í Mosfellsbæ. Báðir leikir fara fram laugardaginn 3. febrúar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×