Innlent

Lyfja­fræðingar kalla eftir skýrari reglum um skaðaminnkun

Berghildur Erla Bernharðsdóttir og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Fréttamaður náði tali af Sigurbjörgu, formanni Lyfjafræðingafélagsins, í Kvöldfréttum Stöðvar 2. 
Fréttamaður náði tali af Sigurbjörgu, formanni Lyfjafræðingafélagsins, í Kvöldfréttum Stöðvar 2.  Vísir

Lyfjafræðingar funda í kvöld um skaðaminnkun í lyfjameðferð. Formaður Lyfjafræðingafélags Íslands segir lyfjafræðinga kalla eftir faglegu verklagi og skýrari reglum í tengslum við skaðaminnkun. 

Þegar viðburðurinn var auglýstur meðal lyfjafræðinga er sögð hafa orðið sprenging í eftirsókn. Sjötíu lyfjafræðingar mættu á fundinn og enn fleiri nálguðust hann í gegn um fjarfundarbúnað.

„Ég held að þetta sé hárréttur viðburður á hárréttum tíma. Við lyfjafræðingar erum allir af vilja gerðir. Við viljum aðstoða heilbrigðiskerfið og getum gert svo miklu meira. En við erum að kalla á eftir faglegu verklagi,“ segir Sigurbjörg Sæunn Guðmundsdóttir, formaður Lyfjafræðingafélags Íslands. 

Sigurbjörg segir lyf sem skilgreind eru sem ávana- og fíknilyf oft mjög vandmeðfarin í ávísun og afgreiðslu. Heilbrigðisstarfsmenn geti misst starfsleyfi ávísi eða afgreiði þeir umfram það sem þeir mega. „Og það er það sem við erum að kalla á eftir, við þurfum aðeins skýrari reglur,“ segir hún.

Býstu við að einhverjar lausnir komi fram á fundinum?

„Það yrði náttúrlega frábært ef það yrðu það miklar umræður að það kæmu kannski einhverjar lausnir í kjölfarið. En við erum að fræða lyfjafræðinga um lausnir annars staðar í heiminum. Til dæmis Noregi. Og við verðum að sjá hvað kemur út úr því.“

Sigurbjörg segir skaðaminnkun ganga út á að mæta einstaklingnum af virðingu og eins og hann er. „En það má ekki vera þannig að við sem apótek hegðum okkur eins og einhverjir sjálfsalar. Við þurfum náttúrlega að fá skýrt, hvað er það sem er minni skaði fyrir einstaklinginn og samfélagið í heild sinni.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×