Körfubolti

Landsliðskona til Grinda­víkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagný Lísa Davíðsdóttir í leik með Fjölnisliðinu. Hún spilar áfram í gulu en nú í Grindavík.
Dagný Lísa Davíðsdóttir í leik með Fjölnisliðinu. Hún spilar áfram í gulu en nú í Grindavík. VÍSIR/VILHELM

Á meðan móðir hennar, Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, leitar pólitískra leiða til að hjálpa Grindvíkingum á þessum erfiðum tímum ásamt félögum sínum í íslensku ríkisstjórninni þá mun Dagný Lísa Davíðsdóttir hjálpa Grindvíkingum inn á körfuboltavellinum.

Grindvíkingar tilkynntu á miðlum sínum að landsliðskonan hafi samið við Grindavík og liðinu hafi því borið óvæntur en jafnframt risastór liðsstyrkur fyrir lokasprettinn í Subway-deild kvenna.

Dagný Lísa, sem er 27 ára miðherji, kemur til Grindavíkur frá Fjölni en hún hefur verið frá keppni vegna meiðsla síðan í desember 2022. Áður en hún meiddist var hún lykilmaður í liði Fjölnis og var valinn besti leikmaður Subway-deildar kvenna vorið 2022.

Á tímabilinu 2021-22 þá var Dagný Lísa með 14,7 stig og 8,4 fráköst að meðaltali í leik en hún skoraði þá 18,5 stig að meðaltali í fjórum leikjum á móti Grindavík.

Dagný er uppalinn í Hamri en spilaði lengi í bandaríska háskólaboltanum áður en hún snéri aftur í íslenska boltann og leiddi lið Fjölnis til besta árangurs þess í sögu liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×