Körfubolti

Stjórn KKÍ úr­skurðar að Danielle verði ís­lenskur leik­maður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danielle Rodriguez er mikill leiðtogi fyrir hið unga og efnilega lið Grindavíkur.
Danielle Rodriguez er mikill leiðtogi fyrir hið unga og efnilega lið Grindavíkur. Vísir/Hulda Margrét

Danielle Rodriguez, leikmaður Grindavíkur í Subway deild kvenna í körfubolta, er komin með íslenskan ríkisborgararétt en það var aftur á móti óvissa um það hvort hún væri áfram skráður erlendur leikmaður hjá KKÍ þar sem hún hóf tímabilið sem slíkur.

Stjórn KKÍ hefur nú fundað um málið og úrskurðað um það að grein fimmtán í reglugerð um Körfuknattleiksmót eigi ekki við í þessu tilfelli.

Í grein fimmtán stendur: Sá sem hefur leiktíðina sem erlendur leikmaður utan EES ríkis telst sem slíkur út leiktíðina og skal miða við fyrsta leik í móti á vegum KKÍ (Íslandsmót, bikarkeppnir eða önnur mót/leikir á vegum KKÍ), nema að fenginni undanþágu stjórnar KKÍ.

Stjórnin hélt reglubundinn stjórnarfund í gær og þar var mál Danielle tekið fyrir.

Samkvæmt heimildum Vísis var það mat stjórnar að grein fimmtán í reglugerð um körfuknattleiksmót eigi ekki við í máli Danielle þar sem hún hefur nú öðlast íslenskan ríkisborgararétt.

Grindvíkingar geta því bætt við lið sitt nýjum bandarískum leikmanni hafi félagið áhuga á slíku.

Danielle hefur verið frábær með Grindavíkurliðinu í vetur en þær grindvísku hafa komið skemmtilega á óvart með góðri frammistöðu. Hún var með 18,4 stig, 9,4 fráköst og 5,7 stoðsendingar að meðaltali í fyrstu ellefu leikjunum.

Fyrsti leikur hennar sem Íslendingur verður á móti Haukum í Smáranum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×