Skoðun

Undur jólanna!

Gunnar Jóhannesson skrifar

Jólunum er lokið. Sennilega lauk þeim fyrir þó nokkru síðan hjá allflestum. En miðað við hina klassísku 13 jóladaga lauk jólahátíðinni formlega á laugardaginn var, á þrettándanum. Í öllu falli er hversdagsleikinn með öllu sínu amstri og önnum tekinn við að nýju – og er það alltaf ágætt. En hvað stendur eftir? Hvað skilja jólin eftir sig? Í hverju er undur jólanna fólgið? Það er veltur vafalaust á því hvern maður spyr og hvernig hann vegur og metur eðli lífsins og tilverunnar. Jólin eru sannarlega uppspretta undurs, meira undurs er margir leyfa sér að sjá og skynja nú á dögum.

1. Guð er!

Fyrsta undur jólanna er hinn leyndardómsfulli mikilfengleiki Guðs. Guðs sem alltaf hefur verið til og er hin eilífa orsök og ástæða þess að eitthvað er til annað en hann sjálfur. „Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er,“ segir Jóhannes okkur í upphafi guðspjalls síns. Guð einfaldlega var áður en nokkuð annað varð til og hann mun áfram vera enda þótt allt annað verði að engu. Þegar Guð kallaði Móse til verka sagði Guð við Móse: „Ég er sá sem ég er.“ Og hann bætti við: „Svo skaltu segja við Ísraelsmenn: ,Ég er‘ sendi mig til ykkar.“

Guð einfaldlega er! Hann er hinsti veruleikinn. Hann er og hefur alltaf verið og mun alltaf verða. Hann á sér ekki upphaf og engan endi. Allt annað en hann sjálfur varð til vegna þess að hann ákvað að svo skyldi verða. Handan hans er ekkert til nema það sem hann hefur sjálfur skapað og raungert. Áður en tími, rúm, orka og efni kom til sögunnar var Guð. Ekkert annað var til. Einungis Guð, almáttugur, eilífur og alvitur kærleikur sem hvílir í sjálfum sér frá allri eilífð. Utan hans er ekkert nema það sem hann hefur sjálfur leitt í ljós, allt frá stærstu stjörnuþokum til hinna smæstu efniseinda. Allt er frá honum komið. Hann ríkir yfir öllum tíma, allri sögu og veruleikanum öllum.

Margir líta á hinn efnislega veruleika í öllu sínu óskiljanlega umfangi sem grunnstærð tilverunnar. En þrátt fyrir alla sína leyndardómsfullu fegurð er hann algjört aukaatriði við hliðina á því sem er uppspretta lífsins, sem er Guð sjálfur. Guð ber gjörvallan alheiminn á herðum sér, ef svo má segja. Hann hefur allt í hendi sér og stefnir öllu að takmarki sínu. Allt sem stjörnusjónaukar mannsins fanga, öll sú undraveröld geimsins sem James Webb sjónaukinn leiðir okkur fyrir sjónir, er handaverk hans – og það er ekkert, minna en ekkert, við hlið hans og í samanburði við hann.

Það er ekki til stærra íhugunarefni en sá veruleiki sem Guð er. Og við þurfum einfaldlega að íhuga hann og leyfa honum að renna upp fyrir okkur. Jólin bjóða upp á það og gefa okkur tilefni til að staldra við. Ef skilningur okkar og skynjun á veruleikanum í allri sinni dýrð, frá hinu smæsta til hins stærsta, á sér ekki upphaf í honum þá missir allt ljóma sinn, gildi sitt og vægi. Ekkert verður jafn stórfenglegt og magnað og það er eða ætti að vera. En þegar maður skynjar það og áttar sig á því að stærsta gjöf lífsins og tilgangur er að þekkja þann Guð sem er á bak við lífið, þá falla áhyggjur lífsins meira eða minna á sinn stað.

2. Guð gekk inn á svið sögunnar!

Annað undur jólanna er að þessi óendanlegi, eilífi skapari hefur stigið inn á sviðið. Hann hefur látið vita af sér, gerst hluti af sögunni og lífinu … í tiltekinni persónu: Jesú frá Nasaret, sem er sannur maður og sannur Guð. „Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði .. Og orðið varð hold,“ segir í formála Jóhannesarguðspjalls. Með öðrum orðum gerðist hið óefnislega, eilífa og takmarkalausa efnislegt og takmarkað, batt sig við tíma og rúm og öll þau kjör sem bjóðast dauðlegum manni.

Jesús er hið eilífa „Ég er“ holdi klætt. „Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs … Hann er fyrri en allt og allt á tilveru sína í honum,“ eins og Páll postuli orðar það í Kólossubréfinu. „Hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.“ (Jóh 1.14)

Þessu var komið í kring með kraftaverki, eins og sagt er frá í guðspjalli Lúkasar. Það komu boð frá engli sem sagði: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala og þú skalt láta hann heita JESÚ.“ (Lúk 1:30-32). María efaðist, hugsaði og spurði sig erfiðra spurninga. En hún lagði þær allar í hendur Guðs og treysti honum og fyrirætlunum hans. Engillinn hughreysti Maríu og sagði: „Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur Hins hæsta mun yfirskyggja þig. Þess vegna verður barnið heilagt, sonur Guðs. (Lúk 1:34-35).

Á jólunum varð Guð maður! Hið eilífa „Ég er“ gerðist hluti af sköpun sinni og gekk um á meðal okkar. Það er kraftaverk jólanna. Hvað eigum við að gera við það? Skynjun og skilningur margs nútímamannsins á lífinu og tilverunni rúmar ekki kraftaverk, þ.e.a.s. inngrip Guðs inn í hinn náttúrulega og efnislega veruleika sem kemur því til leiðar sem ella hefði ekki getað orðið ef náttúrulegar orsakir einar stjórnuðu ferðinni. Efnis- og náttúruhyggja ásamt meðfylgjandi vísindahyggju býður ekki upp á neitt svigrúm fyrir kraftaverk og bindur allt við dautt efni á valdi blindra náttúruafla. Saga veruleikans (og þar með allt sem hefur með okkar innra og ytra líf að gera) er samkvæmt því ekki annað í grunninn en dans efniseinda án nokkurrar eiginlegrar merkingar eða tilgangs – og utan þessa dans er ekkert annað til. Menningin og umhverfið þjálfar okkur snemma í að sjá lífið og tilveruna í þeirri mynd, að trúa ekki á hið yfirnáttúrulega, ekkert á bak við lífið og þar með enga merkingu með lífinu þegar allt kemur til alls. Þeir þröskuldar sem þarf að yfirstíga í dag til þess að trúa á veruleika jólanna eru raunverulegir og stórir og það er ekki ástæða til að gera lítið úr því.

En þeir eru ekki óyfirstíganlegir. Jólin minna okkur á að fyrsta kraftaverkið er löngu afstaðið. Hið upphaflega kraftaverk, sem öll önnur kraftaverk má leiða af, er sköpunin sjálf, sú ákvörðun Guðs að leiða veruleikann, og þar á meðal okkur sjálf, fram úr engu án nokkurra undanfarandi efnislegra orsaka eða fyrirliggjandi aðstæðna að undanskildum hans eigin vilja. Lífið allt, tilveran öll, er eitt stórt kraftaverk séð frá því sjónarhorni og náðargjöf Guðs til okkar og alls sem lifir. Um leið er sköpunin vettvangur og boð til þess að ganga inn í og eiga samband og tengsl við þá uppsprettu lífsins sem Guð er og þiggja lífið og kærleikann sem hann ætlaði okkur í gegnum sköpun sína og samfélagið við sig.

3. Hann kom til þess að gera alla hluti nýja!

Þriðja undur og gleðiefni jólanna er fólgið í ástæðu þess að Guð ákvað að sýna sig og ganga sjálfur inn á svið sköpunarinnar.

„Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum,“ segir í Jóhannesarguðspjalli. Hvers vegna steig hann niður? Hvers vegna lagði Guð sjálfur til hliðar eilífð sína og almætti, takmarkaleysi og guðlegan mátt og tók á sig kjör og takmarkanir hins mennska lífs?

Svarið er og getur bara verið eitt: Takmarkalaus kærleikur Guðs sem ekki vildi týna því sem hann hafði skapað í sinni mynd – eða öllu heldur, vildi ekki að maðurinn mundi með öllu týna sjálfum sér, glata uppruna sínum og sinni sönnu mynd. Þess vegna kom hann og sýndi sig! Þess vegna steig hann niður. Vegna þess að ekkert skiptir hann meira máli en þú og ég.

Í raun er um björgunarleiðangur að ræða. Við getum séð fyrir okkur mann sem stingur sér í djúpan sjó til þess að endurheimta ómetanleg verðmæti. Hann klæðir sig úr öllu sem þyngir hann þar til hann stendur eftir ber. Hann grípur andann á lofti og kastar sér niður. Fyrst smýgur hann í gegnum grænleitt og hlýtt yfirborðið og sækir niður í sólbaðað vatnið. Og eftir því sem dýpra er komið vex þunginn fyrir ofan og leggst á hann af sífellt meira afli. En hann heldur áfram, sækir neðar og neðar. Ljósið þver og vatnið verður myrkara og myrkara uns allt hverfur og eftir stendur frjósandi kuldinn og þrýstingurinn sem er við það að kremja hann. En hann sækir áfram, sífellt neðar, niður í frjósandi og súrefnissnauðan sjóinn, og kemst niður í slímið og leðjuna, og snertir lífvana botninn. Og þaðan heldur hann aftur upp, þegar lungun er við það að gefa sig, hægt í átt að ljósinu, upp að hlýju og sólböðuðu yfirborðinu, og þaðan loks upp fyrir yfirborðið undir sólríkum himninum.

Og í höndinni heldur hann á því sem hann fór að sækja, ástæðan fyrir öllu því sem hann lagði á sig: Mennska mannsins.

Guð steig niður, gekk inn á sviðið sem hann hafði sjálfur reist og mótað, og reis aftur upp. Um leið tók hann mannlegt eðli með sér – og með því nýjan heim, nýjan veruleiki, nýja sköpun. Þess vegna tölum við um fagnaðarerindi. „Því svo elskaði Guð heiminn … “ (Jóh 3.16). Í þessu er hinn einfaldi en ótrúlega fallegi óður Páls postula um Guð í Kristi fólginn: „Því að í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum …“ (Kól 1.19-20). Í því er kjarni kristinna jóla í allri sinni fegurð. Og það er sannarlega undrunarvert.

4. Jólin eru allra

Fjórða undrunar- og gleðiefni jólanna er að gjöf jólanna, það sem jólin færa, býðst öllum og er öllum gefið. Enginn er undanskilinn. Hverjum og einum er boðið að þiggja þá gjöf sem fólgin eru í jólunum. „Hann dó fyrir okkur til þess að við mættum lifa með honum,“ eins og Páll orðar það í fyrsta Þessaloníkubréfi. Og í fyrra Tímóteusarbréfi lesum við þessi undursamlegu orð: Guði, frelsari okkar „vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum. Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús sem gaf sjálfan sig til lausnargjalds fyrir alla.“

Þegar horft er á ástand heimsins og mannkynsins og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir (sem virðast allt að því óyfirstíganlegar) þá að er auðvelt að gleyma því (meðvitað eða ómeðvitað), eða einfaldlega líta framhjá því, að Guð er til. Og ekki einungis að Guð er til heldur líka því að hann er stöðugt að verki innan sköpunar sinnar og leiðir hana til móts við það mark sem hann hefur sett henni. En ef við opnum augun fyrir undri jólanna sjáum við að þekkingin á Guði og samfélagið við hann er í raun takmark mannlegrar tilvistar.

Höfundur er prestur Árborgarprestakalls.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×