Sport

Heims­meistari á­kærður fyrir að valda dauða eigin­konu sinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rohan Dennis keppir í hjólreiðum og hefur unnið heimsmeistaratitil.
Rohan Dennis keppir í hjólreiðum og hefur unnið heimsmeistaratitil. Getty/Dario Belingheri

Ástralski íþróttamaðurinn Rohan Dennis hefur verið ákærður fyrir að binda enda á líf eiginkonu sinnar Melissa Dennis síðastliðið laugardagskvöld.

Melissa lést eftir að hafa orðið fyrir bíl rétt fyrir utan heimili sitt í Medindie í suður Ástralíu en ástralskir fjölmiðlar segja að eiginmaðurinn hafi verið við stýrið.

Hún var flutt á sjúkrahús en lést þar af sárum sínum. Lögreglan handtók Rohan Dennis á staðnum og hann var ákærður fyrir að hafa valdið dauða Melissu með kærulausum akstri.

Hjónin hafa bæði keppt í hjólreiðum á Ólympíuleikunum. Þau giftust árið 2018 og eignuðust tvö börn saman.

Rohan var látin laus gegn tryggingu en réttarhöld hans verða í mars samkvæmt frétt á ABC News.

Hann er 33 ára gamall og varð heimsmeistari í tvígang í kapphjólreiðum eða bæði 2018 og 2019.

Melissa Dennis var líka keppniskona í hjólreiðum og varð meðal annars heimsmeistari í liðakeppni árið 2015 auk þess að hafa tekið þátt í tveimur Ólympíuleikum. Hún var 32 ára gömul.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×