Körfubolti

Segir búnings­klefa Miami Heat vera eins og í Hungur­leikunum

Siggeir Ævarsson skrifar
Udonis Haslem lét menn aldrei komast upp með neitt kjaftæði, innan vallar sem utan
Udonis Haslem lét menn aldrei komast upp með neitt kjaftæði, innan vallar sem utan Vísir/Getty

Udonis Haslem, sem lék með Miami Heat allan sinn feril og fram á fimmtugsaldur, lét nokkrar skrautlegar sögur um stemminguna í Miami flakka í viðtalsþætti á dögunum.

Bam Adebayo, sem enn leikur með Heat og var liðsfélagi Haslem, var einnig í þættinum og þar rifjuðu þeir upp þegar James Johnson slóst við ónefndan liðsfélaga þeirra eftir æfingu eftir að sá ónefndi hafði kallað Johnson „tík“.

Haslem sagði að klefinn hjá Heat væri í raun ekki ósvipaður Hungurleikunum og ef upp kæmi ágreiningur væri hann útkljáður strax. Félagi þeirra hefði kallað Johnson tík sem svaraði að bragði: „Þú verður að hitta mig eftir æfingu.“ Allir vissu nákvæmlega hvað það þýddi.

Adebayo reyndi að stöðva slagsmálin en var sagt að skipta sér ekki af. Svo hefði Johnson einfaldlega gengið í skrokk á liðsfélaga sínum sem var grátandi að barsmíðunum loknum. Hann hafi síðan spurt hvort það væri í lagi með félagann og þeir hafi fallist í faðma á næstu æfingu.

Hægt er að horfa á þáttinn í heild hér að neðan.

Þess má til gamans geta að James Johnson er með svarta beltið í karate, segist hafa slegist í MMA bardögum og telur sig geta sigrað Jon Jones ef hann fái ár til að þjálfa sig upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×