Körfubolti

Einu vörðu skoti frá þre­faldri tvennu

Siggeir Ævarsson skrifar
Chet Holmgren og Nikola Jokic takast á fyrr í vetur. Tvær tvennuvélar.
Chet Holmgren og Nikola Jokic takast á fyrr í vetur. Tvær tvennuvélar. Vísir/AP

Nýliðinn hávaxni, Chet Holmgren, fór á kostum í vörn Oklahoma City Thunder í nótt þegar liðið lagði meistara Denver Nuggets.

Holmgren varði níu skot í leiknum, sem er það mesta sem nokkur leikmaður hefur varið af skotum í einum leik í vetur. Þá skoraði hann 17 stig og tók ellefu fráköst, og var því aðeins einu vörðu skoti frá þrefaldri tvennu.

Þrefaldar tvennur eru ekki á hverju strái í NBA en algengast er þó að leikmenn nái tvöföldum tölum í stigum, fráköstum og stoðsendingum, ekki í vörðum skotum eða stolnum boltum. Af þeim leikmönnum sem enn eru að spila ber Russell Westbrook höfuð og herðar yfir aðra leikmenn með 198 þrefaldar tvennur á ferlinum.

Nikola Jokic nálgast hann hratt og örugglega, kominn með 115 slíkar en var sex fráköstum frá því að bæta einni við í nótt.

Aðeins fjórir leikmenn hafa afrekað fjórfalda tvennu í sögu NBA. Nate Thurmond var fyrstur á blað 1974, Alvin Robertson næstur árið 1986, þá kom Hakeem Olajuwon árið 1990 og loks David Robinson árið 1994.

Fjórfalda tvennan sem Olajuwon bauð upp á er þó í ákveðnum sérflokki. Í mars 1990 náði hann fernunni gegn Golden State, þar sem hann skoraði 29 stig, tók 18 fráköst, varði ellefu skot og gaf tíu stoðsendingar.

Þá sagði NBA deildin stopp og sakaði heimamenn í Houston um að fita tölfræðina og tók eina stoðsendingu í burtu. Olajuwon sagði ekkert mál, ég geri þetta bara aftur og mánuði síðar í leik gegn Milwauke Bucks skoraði hann 18 stig, tók 16 fráköst, varði ellefu skot og gaf tíu stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×