Körfubolti

Auður hættir ó­vænt hjá Stjörnunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Auður Íris Ólafsdóttir hættir þjálfun Stjörnuliðsins á miðju tímabili þrátt fyrir mjög gott gengi.
Auður Íris Ólafsdóttir hættir þjálfun Stjörnuliðsins á miðju tímabili þrátt fyrir mjög gott gengi. Vísir/Hulda Margrét

Auður Íris Ólafsdóttir, þjálfari Stjörnunnar í Subway deild kvenna í körfubolta, hefur óskað eftir að láta af störfum og hættir hún þjálfun liðsins nú um áramótin.

Þetta eru óvæntar fréttir enda hefur Auður gert frábæra hluti með hið unga lið Stjörnunnar. Liðið komst upp í Subway deildina síðasta vor og er í þriðja sæti nú þegar deildin fer í jólafrí.

Auður hefur þjálfað liðið ásamt Arnari Guðjónssyni, þjálfara meistaraflokks karla hjá Stjörnunni. Arnar heldur áfram þjálfun liðsins.

Stjörnuliðið hefur unnið níu af þrettán deildarleikjum sínum í vetur og er aðeins tveimur stigum á eftir Njarðvík sem situr í öðru sæti deildarinnar.

Auður kom fyrst til Stjörnunnar 2018 sem leikmaður, og var meðal annars valin besti varnarmaður efstu deildar 2018/19 þegar hún lék með Stjörnunni. Árið 2021 tók hún við þjálfun liðsins og hefur gert það með Arnari Guðjónssyni til dagsins í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×