Handbolti

Botnliðið sótti mikil­væg stig norður

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga í dag með ellefu mörk.
Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga í dag með ellefu mörk. mynd/selfoss

Selfoss, botnlið Olís-deildar karla í handbolta, vann afar mikilvægan tveggja marka sigur er liðið heimsótti KA norður á Akureyri í dag, 28-30.

Heimamenn í KA skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins, en eftir það voru Selfyssingar sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. Gestirnir að sunnan náðu tveggja marka forystu í stöðunni 6-8 þegar fyrri hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður og liðið leiddi með þremur mörkum í hálfleik, staðan 12-15.

Akureyringar skoruðu hins vegar fyrstu þrjú mörk seinni hálfleiks og jöfnuðu metin. Selfyssingar lögðu þó ekki árar í bát og hrifsuðu forystuna til sín á ný með góðum kafla. Gestirnir litu aldrei um öxl eftir það og unnu að lokum mikilvægan tveggja marka sigur, 28-30.

Einar Sverrisson var markahæsti maður vallarins með ellefu mörk fyrir Selfyssinga, en Vilius Rasimas átti einni stórleik í marki gestanna og varði 17 skot. Ott Varik var atkvæðamestur í liði heimamanna með níu mörk.

Þrátt fyrir sigurinn sitja Selfyssingar enn á botni deildarinnar, nú með sex stig, aðeins einu stigi frá öruggu sæti. KA situr í sjöunda sæti með tíu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×