Skoðun

Eru ungir bændur í SÉR-flokki?

Karl Guðlaugsson skrifar

Uppáhalds amma mín og ein merkilegasta og kærleiksríkasta kona sem ég hef umgengist um ævina var mikill Framsóknarmaður. Hún var fædd á Sléttu í Fljótum í Skagafirði, dóttir hreppstjórans í sveitinni og amma Óla Jó kenndi henni að lesa. Íslenskar landbúnaðarvörur eru í miklu uppáhaldi hjá mér; lambakjötið, mjólkin, smjörið, rjóminn, osturinn og svona mætti lengi telja. Án þessara matvæla gæti ég ekki verið og fæðuöryggi verður að tryggja á Íslandi.

Ég les reglulega Bændablaðið og núna í haust hefur það verið uppfullt af greinum um að ungir bændur séu að kikna undan vaxtaokri vegna lána sem þeir tóku. Ég veit til ungra bænda bæði í Skagafirði og Eyjafirði sem eru að berjast í bökkum vegna þessa vaxtaokurs Seðlabankastjóra. Því fagna ég því að stjórnvöld ætla núna að leggja til 1,6 milljarða ISK fyrir áramót til að koma til móts við unga bændur í því erfiða og galna vaxtaumhverfi sem þeir búa við vegna lána sinna.

En það eru fleiri ungir á Íslandi en ungir bændur! Ungt fólk í öðrum starfsgreinum hefur líka tekið lán til að fjárfesta og reka fyrirtækin sín og ungt fólk sem tók lán til að koma sér þaki yfir höfuðið er líka að kikna undan vaxtaokri Seðlabankastjóra. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera fyrir allt þetta skulduga unga fólk fyrir áramót?

Höfundur er faðir skuldugra barna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×