Handbolti

Gúgluðu Óla Stef um leið og fregninar bárust

Aron Guðmundsson skrifar
Ólafur Stefánsson er þjálfari þýska B-deildar liðsins Aue. 
Ólafur Stefánsson er þjálfari þýska B-deildar liðsins Aue.  Getty

Ís­lenski mark­vörðurinn Svein­björn Péturs­son horfir fram á bjartari tíma hjá liði sínu Aue í þýsku B-deildinni í hand­bolta nú þegar að Ólafur Stefáns­son hefur tekið við þjálfun liðsins. Verk­efnið fram­undan er þó ærið og situr Aue á botni deildarinnar. Ólafur hefur hins vegar, að mati Svein­bjarnar, komið inn með margar góðar og já­kvæðar breytingar á skömmum tíma.

Það hefur fátt gengið upp á tíma­bilinu hjá Aue til þessa. Liðið hefur að­eins náð í tvo sigra og stendur tap­hrina þess nú í fjórum leikjum.

„Þetta er búið að ganga brösug­lega og ný­lega var skipt um þjálfara,“ segir Svein­björn, mark­vörður Aue, í sam­tali við Vísi. „Það má kannski segja að það vanti bara smá reynslu í liðið. Að stórum hluta til erum við með leik­menn sem eru á sínu fyrsta tíma­bili í B-deildinni eða bara á sínu fyrsta eða öðru ári í aðal­liðinu.“

Sveinbjörn er afar reynslumikill markvörður og á að baki bæði feril hér heima sem og í atvinnumennsku. Þá á hann einnig landsleiki fyrir íslands hönd.

Þrátt fyrir úr­slitin hingað til sér Svein­björn klár merki um að það búi hæfi­leikar í ungu leik­mönnum liðsins. Getan til þess að gera betur sé til staðar.

„Það sem hefur verið að fara með okkur er bara smá reynslu­leysi. Ef við tökum sem dæmi síðasta tap hjá okkur, þá er það sem skilur á milli liðanna bara tækni­f­eilar. Tapaðir boltar og í nú­tíma hand­bolta er þér refsað fyrir svo­leiðis mis­tök með marki í bakið. Það hefur verið að kosta okkur hingað til.“

For­ráða­menn Aue á­kváðu í síðasta mánuði að gera breytingar á þjálfara­t­eymi liðsins og var ís­lenska hand­bolta­goð­sögnin, Ólafur Stefáns­son ráðinn sem þjálfari liðsins til loka yfir­standandi tíma­bils.

„Hann þarf að koma inn og fær það verk­efni að breyta gengi liðsins á skömmum tíma. Hann hefur hins vegar verið fljótur að láta til sín taka. Menn eru að læra mjög fag­leg vinnu­brögð af honum. Hvort sem um ræðir á skrif­stofunni eða hjá leik­mönnunum sjálfum. 

Þrátt fyrir að úr­slitin hafi ekki verið að falla með okkur sér maður engu að síður mikla bætingu hjá leik­mönnum og liðinu. Stigin fara að detta inn hjá okkur. Það er ég viss um.“

Kom og greip strax inn í

Þrátt fyrir stuttan tíma í starfi hefur Ólafur, að mati Svein­bjarnar, tekist að koma á mörgum já­kvæðum breytingum.

„Það fyrsta sem maður tekur eftir hjá honum eru bara þau fag­legu vinnu­brögð sem hann býr yfir. Hvað hann er í þessu af lífi og sál. Hann er allan daginn upp á skrif­stofu, liggur yfir mynd­böndum af leikjum okkar og kemur skila­boðum vel á­fram til leik­manna. Það hefur vantað upp á þessa hluti hjá okkur og það hefur sýnt sig hjá liðinu. 

Ég ætla ekkert að fara út í síðasta þjálfara sem við höfðum en það var bara ekki búið að taka á á­kveðnum hlutum hérna í lengri tíma. Óli er búinn að koma inn og grípa strax inn í þessi at­riði sem manni fannst vanta upp á. Ég sé bætingu hjá okkur æfingu frá æfingu.“

Klippa: Gúgluðu Óla Stef er breytingarnar gengu í gegn

Fundirnir hjá Óla séu bein­skeyttir.

„Skila­boðin eru ein­föld sem og reglurnar. En svo tekur það bara mis­langan tíma hjá mönnum að sía þetta inn í sitt kerfi. Mér finnst vera bæting hjá okkur viku til viku. Það er náttúru­lega erfitt fyrir Óla að stíga inn á þessum tíma­punkti. 

Þetta væri allt annað ef hann hefði haft einn og hálfan til tvo mánuði til að undir­búa liðið fyrir tíma­bilið en hann þarf að stíga inn strax og breyta hlutunum. Það sem ég hef séð og heyrt frá strákunum í liðinu er að þeir eru mót­tæki­legir og opnir fyrir hug­myndum Ólafs.“

„Vá!“

Ólafur Stefáns­son er einn besti hand­bolta­maður sögunnar og því ekki skrítið að fréttirnar af því að hann yrði nýr þjálfari Aue, hafi haft á­hrif á leik­menn liðsins.

„Ég verð nú að viður­kenna að fyrstu við­brögð hjá leik­mönnum voru bara „vá!“. Nokkrir af yngri leik­mönnunum fóru strax í símana þar sem að þeir gúgluðu hann og horfðu á mynd­brot frá hans leik­manna­ferli. Sáu hvernig hann var sem leik­maður.“

Ferill Ólafs sem leikmaður talar sínu máli. Magnaður. 

Hvernig Ólafur sjálfur kom inn í verk­efnið hafi einnig verið að­dáunar­vert.

„Hann er mjög auð­mjúkur. Maður skynjar ekkert nema bara góða nær­veru frá honum og hann hefur tekur þátt að fullu í þessu. Hann er góður í mann­legum sam­skiptum, maður á mann, og gefur af sér til leik­manna og þjálfara­t­eymisins. Maður sér það bara á honum að hann ætlar að gefa allt í þetta. 

Það smitar frá sér sam­stundis í leik­manna­hópinn. Maður finnur breytingu á því hvernig menn mæta á æfingar, hvernig þeir æfa. Þessi ráðning ýtti mönnum upp á annað stig. Ef menn ætla sér lengra í í­þróttinni, þá geta þeir lært mikið af Ólafi, hans hugar­fari og vinnu­brögðum.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×