Skoðun

Zonta segja nei við kyn­bundnu of­beldi

Sigríður Björk Guðjónsdóttir og Eygló Harðardóttir skrifa

Þann 24. október var aftur blásið til heils dags kvennaverkfalls undir yfirskriftinni „Kallarðu þetta jafnrétti?“ Þannig var áréttað að þó Ísland hafi tekið stór skref fram á við þegar kemur að jafnrétti kynjanna frá því fyrsta kvennaverkfallið var haldið, eru enn stór verkefni óunnin. Ekki hvað síst er varðar kynbundið ofbeldi, heimilisofbeldi, kynferðisbrot og valdbeitingu á vinnumarkaði.

Zontasamband Íslands eru samtök kvenna sem vinna að því að bæta stöðu kvenna og stúlkna í heiminum og stuðla að jafnrétti. Helstu áherslur Zonta eru að koma í veg fyrir barnabrúðkaup, hækka menntunarstig kvenna og segja skýrt nei við ofbeldi gegn konum og stúlkum.

Árið 2018 var unnin rannsóknin „Áfallasaga kvenna“, sem náði til um 30% íslenskumælandi kvenna á vinnumarkaðnum. Í niðurstöðunum kom fram að á lífsleiðinni höfðu 40% kvennanna orðið fyrir líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi, 32% höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað og 14% þátttakenda höfðu einkenni áfallastreituröskunar. Þá staðfesti rannsóknin langvarandi líkamleg heilsufarsáhrif ofbeldis og áfalla á konur. Þetta bætist við aðra áhrifaþætti ójafnréttis á heilsu kvenna, þar á meðal kynbundinn vinnumarkað og umönnunarbyrði kvenna. Konur hafa á hverjum tíma verið um 60% örorkulífeyrisþega. Eykst munurinn milli karla og kvenna með aldri og má rekja stærstan hluta fjölgunar örorkulífeyrisþega á tímabilinu 2008-2019 til kvenna 50 ára og eldri, eða 42,3%. Þá nýta konur heilbrigðisþjónustu meira en karlar svo ótalinn sé kostnaður sveitarfélaga og réttarvörslukerfisins vegna kynbundins ofbeldis.

Á fjórða tug verkalýðsfélaga og kvennasamtaka stóðu að kvennaverkfallinu og lögðu áherslu á hnitmiðaðar aðgerðir í þágu jafnréttis, þ.m.t. gegn kynbundnu ofbeldi. Því ber að fagna þar sem alltof lengi hefur þunginn af þjónustu vegna afleiðinga ofbeldis hvílt á borði kvenna og samtaka þeirra og til hliðar við stóru opinberu stuðningskerfin sem oft er samið um við kjarasamningsborðið.

Við þurfum öll saman að segja nei við kynbundnu ofbeldi.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir er ríkislögreglustjóri og Eygló Harðardóttir er verkefnastjóri hjá sama embætti. Greinin er birt í tengslum við alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×