Skoðun

Ef sam­kennd væri drif­kraftur stjórn­mála

Gísli Rafn Ólafsson skrifar

Myndir af látnum börnum sem grafin er upp úr húsarústum á Gaza. Myndir af 3 ára barni á strönd grískrar eyju eftir að það drukknaði á leið sinni frá Sýrlandi til Evrópu. Ungur albanskur drengur með bangsa í hönd sem starir út um dyragættina þegar verið er að vísa honum og foreldrum hans úr landi. Fatlaður einstaklingur sem tekinn er úr hjólastól og hent inn í lögreglubíl þegar flytja á hann úr landi.

Allt eru þetta myndir sem vekja upp tilfinningar hjá öllum þeim sem þær sjá. Tilfinningar eins og reiði, sorg, vonleysi og samkennd. Já, það er okkur manneskjum eðlislægt að finna til þegar brotið er á öðrum manneskjum. Við finnum til samkenndar. Samkenndin er tilfinning ólík mörgum öðrum, því að hún er afleiðing þess að við setjum okkur í spor annarra, þeirra sem við sjáum mynd af eða heyrum frásögn frá. Við finnum því næst sömu tilfinningar og ef þetta væri okkar barn eða okkar fjölskylda sem lægi þarna undir húsarústunum.

Læknum, hjúkrunarfólki og öðrum sem horfa upp á erfiða hluti er oft sagt að það megi ekki tengjast skjólstæðingum of persónulegum böndum, því að það geti verið þeim of flókið að starfa í þeim erfiðu aðstæðum sem framundan geta verið. Á sama hátt er okkur stjórnmálamönnum sagt að hugsa ekki um einstaka mál heldur hag heildarinnar.

Þetta er hins vegar kolröng nálgun. Það er akkúrat með því að tengjast einstaklingunum og virkja þar með samkenndina sem við fáum drifkraftinn og skilninginn á því hvað þarf að gera, hvað þarf að bæta og hvað þurfi að setja fókusinn á.

Ef samkennd væri drifkraftur stjórnmálanna, þá væru engin stríð, þá væri engin fátækt, því þá værum við löngu búin að nota þær sterku tilfinningar sem samkenndin vekur innanbrjósts hjá okkur til þess að bæta þann heim sem við lifum í.

Höfundur er þingmaður Pírata.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×