Körfubolti

KR á­fram á toppnum eftir endur­komu­sigur og Sel­foss vann Suður­lands­slaginn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Veigar Áki Hlynsson skroaði 16 stig fyrir KR í kvöld.
Veigar Áki Hlynsson skroaði 16 stig fyrir KR í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

KR er enn á toppi 1. deildar karla í körfubolta eftir nauman eins stigs sigur gegn Þrótti Vogum á heimavelli í kvöld, 99-98. Á sama tíma vann Selfoss sinn annan sigur á tímabilinu er liðið tók á móti Hrunamönnum í Suðurlandsslag.

KR-ingar þurftu heldur betur að hafa fyrir hlutunum er liðið tók á móti Þrótti Vogum í kvöld. Heimamenn í gamla stórveldinu voru átta stigum undir að loknum fyrsta leikhluta og staðan í hálfleik var 46-53, gestunum í vil.

Þróttarar unnu einnig þriðja leikhluta og leiddu því með níu stigum þegar komið var að lokaleikhlutanum. Þar skelltu KR-ingar hins vegar í lás og skoruðu 26 stig gegn 16 stigum gestanna og unnu að lokum nauman eins stigs sigur, 99-98.

KR-ingar eru því enn á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir fimm umferðir, en Þróttur situr í fjórða sæti með sex stig.

Þá vann Selfoss sinn fyrsta sigur á tímabilinu er liðið tók á móti Hrunamönnum í Suðurlandsslag. Gestirnir frá Flúðum leiddu með þremur stigum í hálfleik og voru fjórum stigum yfir þegar þrjár og hálf mínúta var til leiksloka, staðan 89-93.

Heimamenn skorðu þá fjögur stig í röð og jöfnuðu metin áður en Svavar Ingi Stefánsson, sem nýverið dustaði rykið af skónum sem höfðu verið lagðir upp í hillu, setti niður þrist og fór langleiðina með að tryggja Selfyssingum sigurinn.

Selfyssingar héldu að lokum út og unnu góðan tveggja stiga sigur, 98-96, þeirra annar sigur á tímabilinu.

Öll úrslit kvöldsins

Selfoss 98-96 Hrunamenn

ÍR 94-83 Þór Ak.

KR 99-98 Þróttur V.

ÍA 80-82 Fjölnir

Skallagrímur 65-77 Sindri




Fleiri fréttir

Sjá meira


×