Körfubolti

Unnu þrátt fyrir að hafa bara verið yfir í 1,2 sekúndur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Keldon Johnson skorar sigurkörfu San Antonio Spurs gegn Phoenix Suns.
Keldon Johnson skorar sigurkörfu San Antonio Spurs gegn Phoenix Suns. getty/Mike Christy/

Þrátt fyrir að hafa verið yfir í 47 mínútur og 58,8 sekúndur mistókst Phoenix Suns að vinna San Antonio Spurs í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Ekkert benti til annars en að Phoenix myndi vinna tíunda sigurinn á San Antonio í röð þegar liðin áttust við í Arizona í nótt.

Phoenix náði forystunni strax og leiddi mest með tuttugu stigum. Kevin Durant skoraði 26 stig fyrir Phoenix sem tókst þó aldrei að slíta sig alveg frá San Antonio.

Franski nýliðinn Victor Wembanyama fór rólega af stað og klikkaði á fyrstu fimm skotum sínum. En hann varð betri eftir því sem á leikinn leið og endaði með átján stig, átta fráköst og fjögur varin skot.

Í 4. leikhluta sótti San Antonio hart að Phoenix og Wembanyama minnkaði muninn í eitt stig, 114-113, á loka andartökum leiksins. Phoenix tók innkast og boltinn barst á Durant. En Keldon Johnson stal boltanum af honum og skoraði þegar 1,2 sekúndur voru eftir og kom San Antonio yfir í fyrsta sinn í leiknum, 114-115.

Þrátt fyrir að hafa verið undir í 47 mínútur og 58,8 sekúndur af þeim 48 mínútum sem NBA-leikur stendur yfir vann San Antonio Phoenix. Johnson skoraði 27 stig fyrir Spurs sem hefur unnið tvo leiki og tapað tveimur á tímabilinu líkt og Suns.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×