Körfubolti

Syst­kini gera það gott hjá Stjörnunni og eiga ekki langt að sækja hæfi­leikana

Aron Guðmundsson skrifar
Ásmundur Múli Ármannsson og Kolbrún María Ármannsdóttir eru að koma inn af krafti í Subway deildum karla og kvenna á yfirstandandi tímabili.
Ásmundur Múli Ármannsson og Kolbrún María Ármannsdóttir eru að koma inn af krafti í Subway deildum karla og kvenna á yfirstandandi tímabili. Vísir/Einar

Syst­kini að Vestan eru að vekja tölu­verða at­hygli í Subway deildunum í körfu­bolta núna í upp­hafi tíma­bils með liðum Stjörnunnar. Þau Kol­brún María og Ás­mundur Múli koma af miklu körfu­bolta­heimili og stefna langt í í­þróttinni.

Það var á dögunum sem hin 15 ára gamla Kol­brún María Ár­manns­dóttir, sem var valin besti ungi leik­maður 1.deildarinnar í fyrra, sló rúm­lega ní­tján ára gamalt met Helenu Sverris­dóttur er hún varð yngsti leik­maðurinn í efstu deild til þess að skora 31 stig í einum og sama leiknum. Kol­brún María leikur lykil­hlut­verk hjá ný­liðum Stjörnunnar.

„Þetta hefur verið frá­bær reynsla hingað til. Að spila á móti betri leik­mönnum og fá þessa reynslu, á meðan að maður er enn ungur leik­maður, að spreyta sig í efstu deild á móti leik­mönnum á borð við Hildi Björgu og Helenu Sverris. Það er bara geggjað.“

Eins og greint er frá fyrr í fréttinni skrifaði Kol­brún María nafn sitt í sögu­bækurnar á dögunum er hún varð yngsti leik­maðurinn í sögu efstu deildar til þess að skora 31 stig og bætti þar með met sem var áður í eigu Helenu Sverris­dóttur og hafði verið í hennar eign síðan árið 2004.

Kol­brún var að­eins 15 ára, níu mánaða og níu daga gömul er hún bætti metið sem Helena hafði sett sex­tán ára, átta mánaða og fjögurra daga gömul.

Hafðirðu hug­mynd um það strax eftir leik að þú hefðir bætt þetta met Helenu?

„Nei ég hafði ekki hug­mynd um það. Ég fékk bara sím­tal seinna frá Arnari þjálfara þar sem að hann sagði mér frá þessu.“

Helena Sverrisdóttir er ein besta körfuboltakona sem Ísland hefur áttVísir/Bára Dröfn

En hvernig var til­finningin þegar að þú fréttir svo af þessu?

„Það er náttúru­lega bara frá­bært að hafa náð þessu en á sama tíma er ég ekkert að hugsa allt of mikið út í þetta. Ég held bara á­fram að gera mitt.“

Hefur staðið undir traustinu

Bróðir Kol­brúnar. Hinn 16 ára gamli Ás­mundur Múli Ár­manns­son. Hlaut eld­skírn sína með meistara­flokki Stjörnunnar á síðasta tíma­bili og hefur á yfir­standandi tíma­bili verið treyst fyrir fleiri mínútum innan vallar. Þar hefur hann vakið verð­skuldaða at­hygli.

„Það er gaman að taka þátt í þessu verk­efni og ég er Arnari þjálfara virki­lega þakk­látur fyrir traustið sem hann er að sýna mér. Ég vona að ég nái að halda á­fram á sömu braut.“

Arnar Guðjónsson, er þjálfarinn hjá bæði karla- og kvennaliði StjörnunnarVísir/Hulda Margrét

Það sé virki­lega gott fyrir hann að vera í Stjörnunni nú þegar að hann sé á þessum mikil­væga tíma á sínum ferli.

„Stjarnan er með virki­lega flott yngri flokka starf og hér eru allir til­búnir í að hjálpa manni þegar að maður er hjálpar­þurfi.“

Eiga ekki langt að sækja hæfileikana í körfubolta

Ferlar Ás­mundar og Kol­brúnar hafa verið skemmti­lega sam­stíga. Bæði urðu þau bikar­meistarar með yngri flokkum Stjörnunnar á síðasta ári og voru þar bæði valin verð­mætustu leik­menn keppninnar. Nú eru þau á fullu í meistara­flokks­boltanum og plumma sig þar vel.

Syst­kinin eiga ekki langt að sækja hæfi­leikana í körfunni. Móðir þeirra, Stefanía Helga Ás­munds­dóttir varð á sínum tíma Ís­lands­meistari með liði Grinda­víkur árið 1997.

Stefanía Helga Ásmundsdóttir (til vinstri) fagnar Íslandsmeistaratitlinum 1997 með liðsfélögum sínum í liði Grindavíkur

„Hæfileikarnir í körfuboltanum koma allir frá mömmu, ekkert frá pabba,“ segir Ásmundur Múli kíminn.

En er talað um eitt­hvað annað en körfu­bolta á ykkar heimili?

„Nei eigin­lega ekki,“ svarar Ás­mundur. „Körfu­bolta og jú pabba gamla finnst gaman að ræða fót­bolta. Þannig að það er mikið rætt um í­þróttir á okkar heimili.“

Þrátt fyrir að vera virki­lega flottir og efni­legir al­hliða leik­menn nú þegar eru syst­kinin með auga­stað á eigin­leikum hjá hvort öðru sem þau væru til í að bæta við sinn leik.

Flottir leikmenn sem geta náð langtVísir/Einar

„Hann er mjög góður í því að koma upp af dripplinu og fara upp í skot. Það er eitt­hvað sem ég væri til í að bæta í mínum leik,“ svarar Kol­brún María og það stendur heldur ekki á svörum hjá Ás­mundi varðandi það hverju úr leik systur hans, hann væri til í að bæta við sinn leik.

„Hún gefst aldrei upp og er alltaf á fullu. Það er eitt­hvað sem ég væri til í að bæta enn frekar við minn leik. Þraut­seigjan sem hún býr yfir.“

Ferill þessara öflugu leik­manna er enn á byrjunar­stigi en mark­miðin eru há­leit og góð.

„Ég vil bara halda á­fram að vinna mér inn þessar mínútur sem ég hef verið að fá inn á vellinum,“ segir Ás­mundur að­spurður um mark­mið hans á næstunni. „Skila af mér góðri frammi­stöðu og bæta mig eftir því sem líður á.“

Þá vill hann sanka að sér því góða sem kemur frá því að spila og æfa með reynslu­miklum leik­mönnum á borð við Hlyn Bærings og Ægi Þór Steinars­son.

„Þeir eru dug­legir við að hjálpa manni. Beina manni í rétta átt. Það er aldrei neitt vesen í kringum þá.“

Kol­brún María er einnig með góð mark­mið og ætlar að gera sitt til að hjálpa liðinu sínu.

„Ég vil gera mitt besta til að hjálpa Stjörnunni að tryggja sér sæti í úr­slita­keppninni. Það er mark­miðið hjá okkur. Við erum náttúru­lega ný­liðar í deildinni en stefnum bara á að vinna eins marga leiki og við getum og tryggja okkur sæti í úr­slita­keppninni.“

Innslagið úr Sportpakka Stöðvar 2 og viðtalið allt við systkinin má sjá í spilaranum hér að ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×