Körfubolti

Maté: „Það er eiginlega ótrúlegt að við vorum í 50/50 leik miðað við hvað við vorum ömurlegir“

Árni Jóhannsson skrifar
Haukar - Þór Þ. Subway karla haust 2022 Mate Dalmay
Haukar - Þór Þ. Subway karla haust 2022 Mate Dalmay Vísir/Diego

Þjálfari Hauka, Maté Dalmay, var forviða á því að hans menn hafi verið ennþá inn í leiknum miðað við það hvernig hans menn spiluðu lungan úr tapleiknum gegn Þór frá Þorlákshöfn í kvöld. Leikar enduðu 84-81 en það var slöpp byrjun í seinni hálfleik sem fór með leikinn að mati Maté.

„Slöpp byrjun á þriðja leikhluta þar sem Þórsarar stigu svolítið nær okkur og við fórnuðum höndum og biðum eftir því að næsti maður myndi gera þetta fyrir okkur“, sagði þjálfarinn þegar hann var spurður að því hvar leikurinn tapaðist í kvöld.

Eftir tapið gegn Njarðvík þá talaði hann um að hann hafi ekki verið sáttur við það hvernig hans menn brugðust við mótlætinu gegn þeim. Gat hann verið sáttari í kvöld við viðbrögð sinna manna?

„Við bregðumst við mótlætinu alltof seint. Auðvitað er ég ánægður með það, þegar við erum að ströggla sóknarlega og spila illa, að við séum í 50/50 leik í lokin. Við erum alltof lengi að standa upp á móti áhlaupinu þeirra en það kom þó og vonandi lærum við af því og það kemur fyrr næst.“

Maté þarf að hugsa um mikið á milli leikja en er einhverra breytinga þörf?

„Já það getur vel verið að við þurfum að breyta einhverju hjá okkur. Við þurfum allavega að laga sóknarleikinn hjá okkur. Það er lélegt boltaflæði lengst af og það er aðal hausverkurinn en það er líka fullt af vandamálum varnarlega líka. Það er eiginlega ótrúlegt að við vorum í 50/50 leik miðað við hvað við vorum ömurlegir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×