Umfjöllun og viðtöl: KA 27 - Stjarnan 26 | Dramatík í KA-heimilinu

Árni Gísli Magnússon skrifar
Einar Rafn Eiðsson skoraði sex mörk í kvöld, þar af sigurmarkið í lokin
Einar Rafn Eiðsson skoraði sex mörk í kvöld, þar af sigurmarkið í lokin Vísir/Hulda Margrét

KA vann dramatískan eins marks sigur á Stjörnunni í fjórðu umferð Olís deildar karla í handbolta í KA-heimilinu í kvöld. KA var með tvö jafntefli og einn sigur úr fyrstu þremur leikjum sínum á meðan Stjarnan hafði unnið einn leik en tapað tveimur.

Leikurinn var jafn frá upphafi til enda og hin mesta skemmtun fyrir áhorfendur sem mynduðu ærandi stemmingu. KA hafði þó betur á lokasprettinum þar sem Einar Rafn Eiðsson skoraði sigurmarkið þegar innan við mínúta lifði leiks. Lokatölur 27-26 KA í vil.

Liðin skiptust á að skora í upphafi og í raun var jafnt á öllum tölum þangað til á 13. mínútu þegar KA komast í fyrsta skipti tveimur mörkum yfir, 8-6.

Þó nokkur hraði var í leiknum og jókst hann bara eftir því sem leið á fyrri hálfleik. Sigurður Dan Óskarsson í marki Stjörnunnar var í algjörum ham og varði tólf skot í fyrri hálfleik úr allskonar færum. Markmenn KA höfðu þá varið sjö skot samanlagt.

Jafnræði var áfram með liðunum en KA iðulega einu til tveimur mörkum á undan þar sem Dagur Árni Heimisson var í aðalhlutverki og skoraði fimm mörk í hálfleiknum fyrir KA og Hergeir var áræðnastur gestanna með sex mörk í fyrri hálfleik.

Dagur Árni skrúfaði boltann laglega framhjá Sigurði Dan á lokasekúndum fyrri hálfleiks og KA leiddi því með tveimur mörkum í hálfleik, 17-15.

Leikurinn hélt áfram að vera hnífjafn í síðari hálfleik og skiptust liðin nánast á að taka forystuna en KA virtist halda í hana í lengri tíma í senn.

Leikurinn virtist vera snúast Stjörnunni í hag eftir að Ólafur Gústafsson fékk sína þriðju brottvísun og Stjarnan komst tveimur mörkum yfir, 23-25, þegar rúmar sjö mínútur voru eftir. Ef eitthvað er þó öruggt í þessu lífi er það að KA gefst ekki svo auðveldlega upp á heimavelli og við tóku rosalegar lokamínútur.

Jóhann Geir Sævarsson jafnaði leikinn fyrir KA þegar fjórar mínútu voru eftir og í framhaldinu fékk Ragnar Snær Njálsson tveggja mínútna brottvísun fyrir að fara í andlitið á Pétri Árna Haukssyni og allt varð vitlaust í húsinu þar sem KA menn vildu meina að um leikaraskap væri að ræða. KA nýtti ekki sína næstu sókn og Pétur Árni kom Stjörnunni 26-25 yfir í næstu sókn.

Magnús Dagur jafnaði leikinn fyrir KA og Hergeir skaut í stöngina úr næstu sókn og KA því með boltann í stöðunni 26-26 þegar innan við mínúta var eftir. Einar Rafn Eiðsson þrumaði boltanum í markið og reyndist það sigurmark leiksins þar sem síðasta sókn Stjörnunnar gekk ekki upp.

Lokatölur 27-26 fyrir KA.

Af hverju vann KA?

Þetta hefði getað dottið báðu megin í dag en KA er erfitt heim að sækja og liðið nýtti sér meðbyrinn úr stúkunni í dag til að knýja fram sigur í staðinn fyrir það sem hefði orðið þriðja jafnteflið liðsins í röð.

Hverjir stóðu upp úr?

Dagur Árni Heimisson og Einar Rafn Eiðsson voru frábærir í sóknarleiknum og skoruðu sex mörk hvor. Magnús Dagur Jónatansson sýndi mikla áræðni og skoraði fimm mörk.

Ólafur Gústafsson var sterkur í vörninni með fimm lögleg stopp og Einar Birgir Stefánsson með fjögur lögleg stopp.

Hjá Stjörnunni var Hergeir Grímsson heilinn í sóknarleiknum og skoraði níu mörk. Þórður Tandri var öflugur á línunni og skoraði fjögur mörk úr sex skotum. Nafni hans, Tandri Már Konráðsson, tók mikið til sín og skoraði fjögur mörk úr fimm skotum.

Sigurður Dan Óskarsson var frábær í markinu með 19 varða bolta sem gerir 43,2 prósent markvörslu. Jón Ásgeir Eyjólfsson lét til sín taka í varnarleiknum með heil sjö lögleg stopp.

Hvað gekk illa?

Ekkert sem stendur upp úr í dag nema kannski óþarfa margir tapaðir boltar hjá báðum liðum.

Hvað gerist næst?

KA fer til Eyja og mætir ÍBV laugardaginn 7. október kl.16:00.

Stjarnan fær Aftureldingu í heimsókn í TM-Höllina fimmtudaginn 5. október kl. 18:00.

Patrekur: „Óskiljanlegir dómar þarna í restina eins og allir sáu“

Patrekur Jóhannesson þungt hugsi.Vísir/Diego

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður með lið sitt þrátt fyrir grátlegt eins marks tap gegn KA í kvöld. Hann var þó ekki eins ánægður með störf dómarateymisins og lét það í ljós.

„Við vorum alveg frábærir og leystum öll vandamálin sem við lentum í. Missum báða hornamennina og vorum þegar ekki með Starra, okkar aðal hornamann, en mér fannst strákarnir frábærir hérna í dag og áttum svo sannarlega skilið að vinna þennan leik en óskiljanlegir dómar þarna í restina eins og allir sáu. Hergeir fær færi og skýtur í stöng en síðan bara þessi atriði; það er dæmt víti sem KA fær og við fáum ekki, þetta er nákvæmlega eins og það sáu það allir og það er bara hluti af þessu, þeir gera mistök.“

Má segja að þú sért ósáttur með dóma í þessum stórum atriðum í lokin þegar allt er undir?

„Já já, ég meina þetta er bara það sem skiptir máli. Við vorum þannig séð yfir í restina og það eru bara dómar sem voru rangir og ég þarf þá bara að éta það ofan í mig ef það er ekki en það var ekki eins og t.d. Egill maður skilur ekki alveg hvað var í gangi með hann sko, þetta var orðið svolítið vandræðalegt hvað hann var tekinn fyrir.

Vill þá Patrekur meina að Egill Magnússon hafi átt skilið fleiri fríköst og vítaköst í leiknum?

„Já ég meina það sáu það allir í lokin skilurðu, það er verið að gefa víti, en þetta er KA-heimilið og þetta er gryfja, ég þekki það. Geggjað að spila hérna og góð stemming en við líka bara óheppnir að klára ekki færin eins og við fengum og misstum líka boltann og eitthvað svoleiðis en svona í restina þá bara strákarnir frábærir.“

Hvernig staðan á þeim leikmönnum sem urðu fyrir meiðslum í dag?

„Ég held að það líti ekki vel út með Daníel (Karl Gunnarsson). Með Hauk (Guðmundsson) veit ég ekki, öxlin eitthvað sko, við verðum bara að sjá hvernig það er. Pétur (Árni Hauksson) var líka búinn að vera tæpur en hann gat alveg klárað allan hálfleikinn svo það var jákvætt en ég reikna heldur ekki með Starra (Friðrikssyni) á næstunni.

Á Stjarnan unga hornamenn sem hægt er að hóa í eða þarf að kalla inn gamlar kempur fyrir komandi leiki?

„Nei það verða bara ungir, við leysum það með okkar ungu mönnum.“

Halldór Stefán: „Það á að vera gaman að horfa á þetta og við erum svo sannarlega að bjóða upp á það“

Halldór Stefán tók við liði KA fyrir tímabilið.

Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari KA, var vitaskuld ánægður eftir eins marks sigur gegn Stjörnunni í jöfnum og skemmtilegum leik.

„Það er gaman að horfa á KA spila handbolta, við viljum hafa spennandi leiki, og úrslitin sýna það; tvö jafntefli og einn eins marks sigur. Það á að vera gaman að horfa á þetta og við erum svo sannarlega að bjóða upp á það.“

Fyrir leikinn hafði KA gert tvö jafntefli í röð. Var Halldór farinn að sjá þriðja jafnteflið í kortunum þegar staðan var jöfn undir lokin?

„Ég hugsaði eiginlega bara: Við hljótum að vera búnir að læra að vinna leik núna. Við erum búnir að standa í þessu núna tvo leiki í röð að geta unnið og nú eigum við að geta verið búnir að læra að vinna og við gerðum það og það var mjög ánægjulegt að sjá. Margir leikmenn líka sem leggja á vogarskálarnar. Við erum að rótera mikið, það er fullt af ungum strákum, svo kemur Raggi (Ragnar Njálsson), síðustu 10 mínúturnar og lokar vörninni og við vinnum leikinn þannig þetta var bara frábært sko.“

Dagur Árni Heimisson og Magnús Dagur Jónatansson eru ungir leikmenn í liði KA sem tóku mikla ábyrgð í dag og skoruðu samanlagt ellefu mörk en Halldór segir að Skarphéðinn Ívarsson megi ekki gleymast í umræðunni.

„Ekki gleyma Skarpa, hann spilar lítið þegar hann kemur inn og gleymist alltaf í umræðunni, allir halda að hann sé mikli eldir en hinir. Hann er einu ári eldri en Dagur og Magnús. Kemur með flottar tíu mínútur og Jens (Bragi Bergþórsson) líka, spilar fyrstu 20 mínúturnar í leiknum. Það er rosa mikið flott í þessu.“

Ólafur Gústafsson fékk tvær tveggja mínútna brottvísanir á sama augnabliki þegar hann brýtur af sér og lætur einhver vel valin orð falla í kjölfarið. Hann fær svo sína þriðju brottvísun í seinni hálfleik þegar hann rekur fót sinn út fyrir sendingu. Voru þetta réttmætir dómar að mati Halldórs?

„Já já klárlega, bara hárrétt að dæma allt saman“, sagði hann einfaldlega.

„ÍBV á laugardaginn eftir viku. Það er bara að vakna á morgun og byrja að undirbúa það. Við sjáum það bara á öllum úrslitum að það geta allir unnið alla í þessari deild og við þurfum að vera á tánum þegar við mætum litlu liðunum og svo þurfum við að vera tilbúnir í toppslagina“, sagði Halldór að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.