Skoðun

Sumar hinna háu sekta

Ingvar Smári Birgisson skrifar

Á örfáum mánuðum hafa margar af helstu eftirlitsstofnunum á sviði fjármála- og viðskiptalífs á Íslandi lagt á langhæstu sektir í sögu hverrar stofnunar fyrir sig. Í sjálfu sér er ekki óeðlilegt að sektir fari hækkandi, hvað þá á tímum verðbólgu og mikilla efnahagslegra umsvifa, en athygli vekur að metsektirnar eru margfalt hærri en áður þekktist hjá stofnununum og óvíst er hvað veldur þeirri stökkbreytingu sem hefur átt sér stað.

Í byrjun sumars lagði Fjármálaeftirlitið á sína langhæstu sekt þegar Íslandsbanki var sektaður vegna annmarka í störfum bankans við framkvæmd á útboði í 22,5% eignarhlut í bankanum sem fór fram í mars í fyrra. Sektarfjárhæðin, sem var kr. 1.160.000.000, kom flestum á óvart og töldu spekúlantar að sektin yrði í mesta lagi nokkuð hundruð milljónir, enda hafði sátt verið gerð í málinu. Sektin á Íslandsbanka fól því í sér meira en þrettánföldun á þeirri sekt sem áður var hæsta sekt í sögu Fjármálaeftirlitsins. Næsthæsta sekt Fjármálaeftirlitsins var lögð á Arion banka árið 2020 að fjárhæð kr. 87.700.000 og var lögð á bankann fyrir að upplýsa ekki tímanlega um hópuppsagnir.

Í tilviki Persónuverndar sló stofnunin eigið met í lok júnímánaðar sl. þegar Embætti landlæknis var sektað um 12 milljónir fyrir að hafa ekki tryggt öryggi rafrænna heilbrigðisupplýsinga með fullnægjandi hætti. Sama dag var svo metsektin margfölduð með nýrri sekt, rúmlega þrefalt hærri en metsekt morgunsins, að fjárhæð kr. 37.856.900 sem Persónuvernd lagði á Creditinfo fyrir að hafa ekki staðið rétt að skráningu smálána á vanskilaskrá.

Samkeppniseftirlitið setti svo Íslandsmet í lok ágústmánaðar þegar sekt að fjárhæð 4,2 milljarðar króna var lögð á Samskip vegna samráðs við Eimskip. Árið 2021 hafði Eimskip gert sátt í málinu og greitt sekt að fjárhæð 1,5 milljarðar króna en sú sekt var einmitt á þeim tíma langhæsta sekt Samkeppniseftirlitsins, jafnvel þótt eldri sektir séu uppreiknaðar miðað við verðlag, og hélt hún þeim titli þar til sektin var tæplega þrefölduð með þeirri sekt sem nú var lögð á Samskip.

Áhugavert er að stærstu eftirlitsstofnanir viðskiptalífsins hafi allar í sumar lagt á sektir sem voru margfalt, jafnvel tugfalt, hærri en hæstu sektir sem stofnanirnar höfðu áður lagt á. Það virðist ekki vera að lagabreytingar á sektarheimildum stofnananna liggi hér að baki né heldur stigmögnun í alvarleika brota, heldur frekar breytt framkvæmd á línuna.

Það er að minnsta kosti gott að vita til þess að heilbrigð samkeppni þrífist á einhverjum sviðum samfélagsins.

Höfundur er lögmaður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.