Handbolti

Sjö ís­lensk mörk þegar Skara vann sigur í bikarnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði fimm mörk fyrir Skara í dag.
Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði fimm mörk fyrir Skara í dag. Skara

Íslendingaliðið Skara vann þriggja marka sigur á Torslanda þegar liðin mættust í sænsku bikarkeppninni í handknattleik í dag. Þrír íslenskir leikmenn spila með Skara.

Sænska bikarkeppnin er að hluta til leikin í riðlakeppnisformi og spilaði Skara fyrsta leik sinn í riðlinum í dag þegar liðið mætti Torslanda. Aldís Ásta Heimisdóttir, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir og Katrín Tinna Jensdóttir eru allar á mála hjá Skara.

Reglurnar í sænska bikarnum eru nokkuð sérstakar. Liðin í deildum 3-6 byrja leikinn á því að fá hraðaupphlaup til að fá mörk á töfluna. Lið Torslanda leikur tveimur deildum fyrir neðan Skara og fékk sex hraðaupphlaup sem þær nýttu. Staðan þegar sjálfur leikurinn fór af stað því 6-0 fyrir Torslanda.

Gestirnir voru þó fljótir að koma sér inn í leikinn og náðu að jafna í stöðunni 10-10 þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður. Staðan í hálfleik var 17-16 Torslanda í vil.

Í síðari hálfleik tók Skara yfirhöndina og komst meðal annars þremur mörkum yfir í stöðunni 24-21. Þær unnu að lokum 31-28 sigur og tryggði sér því mikilvæg stig í baráttunni um áframhaldandi sæti í bikarkeppninni.

Aldís Ásta skoraði 5 mörk fyrir Skara í dag og Jóhanna skoraði þrjú. Katrín Tinna komst ekki á blað. Skara leikur næst á mánudaginn gegn Hallby sem einnig vann sigur í sínum leik í dag.

Þá var Bertha Rut Harðardóttir í miklu stuði með liði sínu Kristianstad sem vann öruggan 39-17 sigur á Eslöv.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×