Innlent

„Það er neyð á götunum og það er al­var­legt mál“

Lovísa Arnardóttir skrifar
Einar segir að ríkið verði að taka ábyrgð á lagasetningu sinni og afleiðingum hennar.
Einar segir að ríkið verði að taka ábyrgð á lagasetningu sinni og afleiðingum hennar. Vísir/Einar

Reykjavík mun ekki þjónusta flóttafólk sem svipt hefur verið þjónustu án samtals eða verklags um verkefnið. Formaður borgarráðs segir verkefnið risavaxið og að það muni aðeins vaxa. 

Formaður borgarráðs, Einar Þorsteinsson, segir ríkið verða að ákveða hver eigi að taka við fólki eftir að þau hafa misst rétt á þjónustu í kjölfar þess að hafa fengið endanlega synjun um alþjóðlega vernd. 

Í nýju minnisblaði sem birt var í dag frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga kom fram að sveitarfélögum er ekki heimilt eða skylt að þjónusta þennan hóp og að það verði ekki gert án samnings eða nokkurrar greiðslu. Málið var rætt á fundi borgarráðs í dag en þangað komu fulltrúar frá velferðarsviði borgarinnar til að greina frá stöðu mála en fólkið hefur undanfarna daga leitað í neyðarskýli borgarinnar.

„Það er neyð á götunum og það er alvarlegt mál og það er mikilvægt að ríkið, sem setti þessi lög, útfæri framkvæmd þeirra af því að hún er mjög broguð og óljóst hvernig á að tryggja mannsæmandi líf þessa fólks sem nú er á götunum,“ segir Einar en sveitarfélögin funda á morgun með dómsmála- og félagsmálaráðherra. Einar vonast til þess að sá fundur skýri stöðuna og segir að sveitarfélögin geti gert ýmislegt, verði niðurstaða fundarins sú að það sé best að sveitarfélögin taki við fólkinu.

„Það er augljóst mál að það þarf skýrari ramma utan um þetta verkefni þá. Sveitarfélögum eru ekki færð verkefni án þess að þau séu kostnaðarmetin og samið um það,“ segir hann og að sveitarfélögin þegar þjónusti ýmsa viðkvæma hópa en að svo það sé gert verði að eiga um það samtal.

„Við afleiðingum þessara lagasetningar var varað, að þetta væri óútfært og að þetta þyrfti að laga,“ segir Einar og nefnir sem dæmi Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, önnur sveitarfélög og fleiri.

Tekist á um lagaákvæði félagsþjónustulaga

Hann gagnrýnir að frá því hafi ekkert samtal átt sér stað við sveitarfélögin og segir mikilvægt að samtalið sé hafið.

Það ákvæði laga sem tekist á er um er 15. grein laga um félagsþjónustu sveitarfélaga en þar er kveðið á um aðstoð sem veita á útlendingum. Einar segir að borgin hafi þegar látið reyna á ákvæði félagsþjónustulaga um aðstoð við erlenda ríkisborgara, en það án árangurs.

„Það er það skrítna í þessu að reglurnar um útlendinga í neyð virðast ekki ná utan um þennan hóp þrátt fyrir yfirlýsingar um annað,“ segir Einar og að borgin hafi sótt um endurgreiðslu en ekki fengið. Það sé of margt óljóst og það sé ekki gott.

Einar bendir á að verkefnið sé risavaxið og að það eigi aðeins eftir að stækka.

„Við verðum að átta okkur á því að taka svona hóp í fangið er miklu meira mál en að fá endurgreidda fjárhagsaðstoð,“ segir Einar og að útvega þurfi fólki húsaskjól, framfærslu, ráðgjöf. Þessu þurfi að fylgja stöðugildi til að annast hópinn og að það sé meira verkefni en bara að sækja um endurgreiðslu vegna fjárhagsaðstoð.

„Þetta er risavaxið verkefni sem mun bara vaxa. Þetta eru 40 núna í þessari stöðu en fyrir jól verða þau 200 eða 300 og ríkið þarf aðeins að staldra við og ákveða hvernig þau vilja gera þetta,“ segir Einar og að verkefni krefjist samtals og sérstakrar umgjarðar því hópurinn er svo viðkvæmur.

„Við skulum ekki gleyma því að ríkið setti hér lög um það að 30 dögum liðnum ætti einstaklingur sem er af ríkinu metinn með tilhæfulausa umsókn um hæli að yfirgefa landið um leið og hann missir allan rétt til þjónustu. Það er dálítið skrítið að síðar komi svo ríkið og segi að sveitarfélögin eigi að borga. Fyrir mér snýst þetta ekki um peninga heldur að tryggja velferð og mannúð og það verður að hraða því samtali.“

Hvernig líður þér að sjá fólk í þessari stöðu?

„Bara ömurlega. Þetta er fólk eins og ég og þú og það gengur ekki að fólk sé á götunni.“

Geti ekki tekið verkefnið án umgjarðar

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi, segir borgina alls ekki geta tekið að sér verkefni ríkisins. Hún sat einnig fund borgarráðs sem fulltrúi þess og segist bíða spennt eftir niðurstöðu samtals sveitarfélaga og ríkis um þessi mál.

„Sveitarfélögin hafa ekki tekið þetta verkefni til sín enda er þetta ekki verkefni sveitarfélaga. Þetta er skýrt verkefni ríkisins og hefur verið það og mun vera það áfram,“ segir Þórdís Lóa en að mikilvægt sé að samtalið sé hafið og haldi áfram.

Þórdís Lóa segir sveitarfélögin ekki geta tekið að sér verkefni ríkisins. Vísir/Einar

„Við erum bara að sjá byrjunina og höfum verulegar áhyggjur af því hvernig staðan er að þróast. Við getum ekki búið við þessa stöðu eins og hún er í dag,“ segir hún og að það sé áríðandi að ríkið komi um þessi mál upp mannsæmandi umgjörð sem innihaldi stuðning við fólk í þessari stöðu, til frambúðar.

„Lögin eru ný og ríkið verður að bera þessa ábyrgð og koma með framkvæmdina, stuðninginn og umgjörðina. Það er skýrt ákall um það.“

Spurð hvort þau geti þjónustað hópinn á meðan ákvörðun er tekin segir Þórdís það af og frá. Sveitarfélögin geti ekki stigið inn í verkefni sem skilgreind eru annars staðar. Það væri ekki gott fordæmi að taka verkefni ríkisins án skýrrar umgjarðar.

„En ég held að það séu allir sammála um það að við viljum gera vel í þessum málaflokki. Hugur okkar og hjarta er hjá þessu fólki sem er á götunni núna og við þökkum guði fyrir það að það sé ekki verra veður en það er núna. Við erum í ágúst í hlýindum en það væri hræðileg staða ef við værum í veðrinu sem við vorum í síðasta vetur í 18 til 20 stiga frosti dag eftir dag. Þetta er grafalvarleg mál og við sjáum að við verðum að taka á því.“


Tengdar fréttir

Ekki heimilt að að­stoða þjónustu­svipta hælis­leit­endur

Sveitarfélögum er hvorki heimilt né skylt að veita fjárhagsaðstoð til hælisleitenda sem hafa verið sviptir þjónustu ríkisins í kjölfar synjunar á umsókn um alþjóðlega vernd. Þetta er niðurstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga en ráðherrar hafa kallað eftir því að sveitarfélögin grípi hópinn. 

„Ekki gott að horfa upp á að fólk sofi í gjótum“

Félagsmálaráðherra telur ljóst að sveitarfélögin verði að grípa umsækjendur um alþjóðlega vernd sem hafa tapað allri þjónustu eftir að hafa fengið endanlega synjun um vernd. Verkefnið núna sé að tryggja fólkinu stjórnarskrárbundna lágmarksþjónustu.

Ríkið hafi tekið á sig ábyrgð á velferð flóttafólks

Miðstjórn ASÍ lýsir yfir áhyggjum sínum vegna þeirrar stefnu stjórnvalda að flóttafólk í sérstaklega berskjaldaðri stöðu sé sent út á götuna, svipt þjónustu og ekki gefinn kostur á að sjá sér farborða í íslensku samfélagi.

Gagn­rýnir úr­ræði dóms­mála­ráð­herra: „Þetta er ný tegund af fangelsi“

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra vill opna nýtt búsetuúrræði með takmörkunum fyrir flóttafólk sem ekki sýnir samstarfsvilja. Óeining er á milli ráðherra ríkisstjórnarinnar um hvort að sveitarfélögum beri að þjónusta hópinn. Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar kallar hugmynd Guðrúnar nýja tegund af fangelsi.

„Það er væntan­lega með skert ferða­frelsi“

Guðrún Hafsteinsdóttir hefur sagt að til skoðunar sé að koma á fót búsetuúrræði með takmörkunum fyrir fólk sem hefur fengið endanlega synjun um alþjóðlega vernd en neitar að yfirgefa landið. Hún segir búsetuúrræði með takmörkunum alls ekki vera fínna orð yfir flóttamannabúðir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×