Körfubolti

„Ég að vera skyn­­samur í fyrsta skipti á mínum ferli“

Aron Guðmundsson skrifar
Martin verður ekki með íslenska landsliðinu í Tyrklandi
Martin verður ekki með íslenska landsliðinu í Tyrklandi

Martin Her­manns­son, at­vinnu- og lands­liðs­maður í körfu­bolta er hungraður í að snúa aftur inn á völlinn eftir erfið hné­meiðsli, sanna fyrir öllum að sami gamli Martin sé mættur aftur.

Martin hefur í sumar verið við æfingar með ís­lenska lands­liðinu sem hefur lokið undir­búningi sínum fyrir komandi for­keppni fyrir undan­keppni Ólympíu­leika næsta árs. Þó svo að staðan á honum núna sé mjög góð vildi fé­lags­lið hans Valencia hafa vaðið fyrir neðan sig, hann fer því ekki með lands­liðinu til Tyrk­lands

„Staðan á mér er bara hrika­lega góð, hnéð er búið að vera mjög gott í gegnum þessa lotu. And­lega staðan er hins vegar ívið verri, ég var orðinn mjög spenntur fyrir þessu verk­efni og hafði gert mig til­búinn í það. En þegar að maður horfir á skyn­sömu hliðina í þessu þá held ég að það sé sniðugra fyrir mig á þessum tíma­punkti og vera ferskur með liðinu þegar það snýr aftur í febrúar.“

Martin Hermannsson og Elvar Már Friðriksson í leik með ÍslandiVísir/Bára Dröfn

En hvað veldur því að þú ferð ekki með liðinu í for­keppnina?

„Þetta er í raun bara fé­lagið mitt úti og kannski ég líka sem höfum mest að segja í þessu. Ég er náttúru­lega að koma til baka úr erfiðum meiðslum en núna undan­farinn einn og hálfan mánuði hefur mér liðið mjög vel. Hvað komandi verk­efni varðar þá er þar um að ræða marga leiki á skömmum tíma.

Þannig að þetta er ég að vera skyn­samur í fyrsta skipti á mínum ferli. Ég held að það sé kominn sá tíma­punktur að vera það, að ég noti reynsluna sem ég bý að og haldi ekki út í eitt­hvað rugl. Verði frekar heill í febrúar þegar að leikirnir, sem við þurfum að vinna, koma.“

Í komandi for­keppni fyrir Ólympíu­leikana er Ís­land í riðli með Tyrk­landi, Úkraínu og Búlgaríu. Tvö efstu lið riðilsins tryggja sér sæti í undan­úr­slitum en af þeim fjórum liðum sem komast þangað er að­eins eitt sem tryggir sér sæti í undan­keppni leikanna.

Líkurnar ekki með okkur

Hvernig horfir þessi for­keppni við þér?

„Við erum alltaf bestir, ég hef engar á­hyggjur af því. Liðið lítur vel út og fram­tíðin er björt. Í þessum leik­manna­hópi eru margir leik­menn sem að eru að koma mér á ó­vart. Auð­vitað eru líkurnar ekki með okkur í þessu verk­efni sem er fram undan í þessari for­keppni. Við erum að fara spila á móti mörgum af bestu þjóðum í heiminum.

Þetta er verk­efni þar sem að við megum ekki tapa leik. Stuðullinn er því ekki lágur en við ætlum að nýta þetta í að verða betri, þjappa okkur saman og gefa mönnum dýr­mæta reynslu sem felst í því að spila á móti mörgum af bestu leik­mönnum Evrópu. Þá reynslu nýtum við svo á réttan hátt í febrúar þegar að mótið kemur sem okkur langar virki­lega mikið á.“

Hræðumst ekki neinn

Og talandi um það verk­efni, þá var dregið í undan­keppni Evrópu­mótsins á dögunum en þar mun ís­lenska lands­liðið þurfa að eiga við and­stæðinga sem liðið þekkir eða mun þekkja vel. Ítalíu, Tyrk­landi og Ung­verja­landi.

„Þetta var enginn drauma­dráttur,“ segir Martin. „Hefði maður fengið að velja sjálfur, þá hefði maður valið þetta að­eins öðru­vísi. Við erum hins vegar bara komnir á þann stað sem lands­lið að við hræðumst ekki neinn.“

„Auð­vitað var kannski verst að fá Tyrk­land úr seinni styrk­leika­flokknum þar sem að þeir voru svona fyrir fram lang sterkastir úr þeim flokki. Ung­verjarnir eru kannski þeir sem við horfum kannski mest á sem liðið sem við þurfum að vinna tvisvar og við getum það klár­lega en þurfum á sama tíma að hafa alla heila, alla með til þess að eiga góðan séns.

Okkur, á­samt þjóðinni, langar rosa­lega mikið á annað stór­mót og við ætlum að leggja okkur alla fram til þess að reyna ná því mark­miði.“

Vill sanna sig upp á nýtt

Martin er að koma til baka úr erfiðum kafla á sínum ferli. Hversu hungraður er hann að snúa aftur á keppnis­völlinn?

„Alveg svaka­lega. Ég kom til baka eftir níu og hálfan mánuð í fjar­veru, sem er rosa­lega snemmt eftir kross­banda­slit og ætlaði að vera með ein­hverja stæla þarna og byrjaði í kjöl­farið að finna fyrir smá bak­slagi.

Í sumar hef ég hins vegar náð að æfa mjög vel og mér líður eins og ég sé á þeim stað sem ég var á áður en ég sleit kross­böndin. Núna er búið að gera mig að fyrir­liða hjá Valencia og stórir hlutir að fara eiga sér stað á næsta tíma­bili.

Mig langar rosa­lega að sanna mig upp á nýtt og sýna að ég sé enn þá sami gamli Martin, að ég sé mættur aftur.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×