Handbolti

„Algjört eitur fyrir trúverðugleikann í íþróttaheiminum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gjorgji Nachevski  er meðal dómara sem er grunaður um að hafa haft áhrif á úrslit leikja. Hann er sonur Dragans Nachevskis, fyrrverandi formanns dómaranefndar EHF.
Gjorgji Nachevski er meðal dómara sem er grunaður um að hafa haft áhrif á úrslit leikja. Hann er sonur Dragans Nachevskis, fyrrverandi formanns dómaranefndar EHF. getty/Dean Mouhtaropoulos

Formaður danska handknattleikssambandsins segir að umhverfi bestu dómara í handboltaheiminum verði að vera öruggt.

Fyrri hluti heimildamyndar TV 2 í Danmörku, Grunsamlegur leikur, var frumsýndur í síðustu viku. Þar er fjallað um hagræðingu úrslita í handbolta. Myndin var í vinnslu í fjögur ár.

Í myndinni er meðal annars rætt við fyrrverandi dómara sem lýsir því þegar Dragan Nachevski, fyrrverandi formaður dómaranefndar EHF, bað hann um að hafa áhrif á úrslit leiks.

Í myndinni sést Nachevski einnig ræða við þann sem hann hélt að væri kínverski kaupsýslumaðurinn herra Zhang en var í raun tálbeita TV 2. Herra Zhang spurði Nachevski meðal annars um möguleikann á að hagræða úrslitum í handbolta. Nachevski sagðist ekki taka þátt í slíku en gerði ekki nóg til að fjarlægja sig frá málinu og var því settur af sem formaður dómaranefndar EHF.

Formaður danska handknattleikssambandsins, Morten Stig Christiansen, segir að fólk verði að geta treyst því að dómarar séu ekki með óhreint mjöl í pokahorninu og reyni að hafa áhrif á úrslit leikja.

„Það er algjörlega fáránlegt að skýrsla sem segir frá þessu, hafi komið út 2018 og alþjóðlega handboltasamfélagið, þe. félög og sambönd, skilji nú fyrst mikilvægi þess að sé verið að berjast gegn þessu af krafti. Þetta er algjört eitur fyrir trúverðugleikann í íþróttaheiminum,“ sagði Christiansen við TV 2 og vísaði til skýrslu fyrirtækisins SportRadar um að úrslitum í 26 leikjum frá september 2016 til nóvember 2017 hafi verið hagrætt.

Christiansen segir að það verði að gera uppljóstrurum kleift að koma fram með upplýsingar sem nýtist í baráttunni við hagræðingu úrslita í handbolta.

„Við höfum nú þegar rætt við deildina og félögin í Danmörku. Vonandi opnar það leið fyrir uppljóstrara að miðla upplýsingum sem þeir hafa komist yfir með öruggum hætti og þeir geta treyst því að tekið verði á málunum,“ sagði Christiansen.

„Það verður að vera öruggt að vera alþjóðlegur dómari á hæsta getustigi eins og að vera leikmaður og þjálfari. Ef þú ert undir pressu frá glæpamönnum er mikilvægt að þú þegir ekki þunnu hljóði. Þú verður að koma upplýsingum áleiðis.“

Seinni hluti Grunsamlegs leiks verður frumsýndur á miðvikudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×