Handbolti

„Þessi skandall verður hundrað sinnum verri ef allar upplýsingar koma fram“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarte Myrhol er einn besti línumaður handboltasögunnar.
Bjarte Myrhol er einn besti línumaður handboltasögunnar. getty/Slavko Midzor

Einn besti línumaður allra tíma er ekki hissa á uppljóstrunum TV 2 í heimildamynd um hagræðingu úrslita í handbolta. Hann segist hafa grunað að brögð væru í tafli um langa hríð.

Í fyrradag var fyrri hluti heimildamyndarinnar Grunsamlegur leikur frumsýndur á TV 2 í Danmörku. Þar er fjallað um hagræðingu úrslita í handbolta. Myndin var fjögur ár í vinnslu.

Í myndinni er meðal annars rætt við fyrrverandi dómara sem lýsir því þegar Dragan Nachevski, fyrrverandi formaður dómaranefndar EHF, bað hann um að hafa áhrif á úrslit leiks. Nachevski var settur af sem formaður dómaranefndar EHF í maí vegna upplýsinga frá TV 2.

Bjarte Myrhol, einn fremsti línumaður handboltasögunnar, er ekki beint undrandi á því sem kemur fram í mynd TV 2. Hann segist alltaf hafa grunað að ýmislegt vafasamt fengi að viðgangast í handboltanum.

„Því miður er afar fátt í heimildamyndinni sem kemur mér á óvart. Hvorki varðandi dómarana né EHF. Þetta er eitthvað sem ég hef verið meðvitaður um í tuttugu ár,“ sagði Myrhol.

„Eins leiðinlegt og það er að segja það var þetta verra áður fyrr. Þessi skandall verður hundrað sinnum verri ef allar upplýsingar koma fram í dagsljósið. Það tekur mig sárt að segja þetta.“

Í skýrslu fyrirtækisins SportRadar kom fram um að grunur leiki á að úrslitum í 26 leikjum frá september 2016 til nóvember 2017 hafi verið hagrætt.

Nachevski hefur neitað sök og þvertekið fyrir að hann hafi reynt að hafa áhrif á úrslit leikja en handboltadómstóll EHF er með mál Norður-Makedóníumannsins til rannsóknar. 

Sonur hans, Gjorgij, hefur verið í hópi fremstu dómara heims síðustu ár. Hann var settur til hliðar vegna gruns um hagræðingu úrslita. Þá er hann grunaður um að hafa tengsl við skipulögð glæpasamtök.


Tengdar fréttir

Notuðu tálbeitu til að góma formann dómaranefndar EHF

TV 2 notaði tálbeitu til að ræða við Dragan Nachevski sem var settur af sem formaður dómaranefndar EHF í maí vegna gruns um hagræðingu úrslita í handbolta. Samtal Nachevskis og tálbeitunnar var sýnt í fyrri hluta heimildamyndarinnar Grunsamlegur leikur sem var frumsýnd í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×