Innlent

Land­risið bendi til kraft­mikils goss

Oddur Ævar Gunnarsson og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa
Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur.
Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur. Vísir/vilhelm

Þor­valdur Þórðar­son, eld­fjalla­fræðingur, segir um­fang og út­breiðslu landriss á Reykja­nes­skaga benda til þess að nægi­legt kviku­magn sé til staðar til þess að búa til kraft­mikið gos. Slíkt gos yrði stærra en gos á Reykja­nes­skaga árið 2021 og 2022. Ljóst sé að kvika sé búin að ryðja sér til rúms í efri hluta jarð­skorpunnar.

Þor­valdur segir erfitt að segja til um magn kviku á Reykja­nesinu þar sem jörð hefur nötrað í dag. Þá sé enn erfiðara að segja til um hve ná­kvæm­lega stórt gosið verður og hve­nær hugsan­lega gýs, þó meiri líkur séu á því en minni.

„En ef við tökum dæmi í þessu til­felli, þá erum við að tala um að það hefur orðið land­ris á til­tölu­lega stóru svæði á Reykja­nesi, á breiðu og út­dreifðu svæði með miðju í Fagra­dals­fjalli og eftir því sem svæðið sem verður fyrir á­hrifum af land­risi stækkar því meira verður rúm­málið á þeim vökva sem er að koma inn og valda land­risinu.“

Sé miðað við það sé hugsan­lega nægt kviku­magn undir jörð til þess að búa til til­tölu­lega stórt hraun­gos. „Þá stærra en þau sem komu upp 2021 og 2022. En hversu stórt það verður er erfiðara að segja til um.“

Aðrar sviðs­myndir mögulegar en 2021 og 2022

Þor­valdur segir að sama skapi erfitt að segja til um hvar gos muni koma upp. Miðað við hvar jarð­skjálftar finnist á Reykja­nesi, í beinni línu af gíga­röðinni sem myndaðist 2022, muni lík­lega gjósa þar í grenndinni

„Jörð gæti þess vegna opnast rétt norðan við Fagra­dals­klasann og þá svona inn af Þráins­skildi, sem væri að­eins öðru­vísi sviðs­mynd en við sáum í 2021 og 2022 gosinu. Því ef gos­sprungan opnast svona norðar­lega hefur hún flæði­að­gang í norður­átt, niður í áttina Kefla­víkur­veginum.“

Að þínu fræði­lega mati, hversu lík­legt telurðu að eld­gos geti orðið?

„Mér finnst líkurnar alltaf vera að aukast, eftir því sem að hrynan heldur á­fram. Þannig ég tel það séu veru­legar líkur á eld­gosi í þessu til­felli, sér­stak­lega þegar maður tekur til­lit til þess að skjálftarnir hafa eitt­hvað verið að grynnka. En það er erfiðara að segja til um hvort það sé eftir ein­hverja daga eða ein­hverjar klukku­stundir.“

Ekki bendi neitt til þess enn sem komið er að kvikan sé komin það grunnt að það styttist í gos. Ein­hver tími sé í það.

„En ef þetta heldur sem horfir þá held ég að þetta endi í eld­gosi,“ segir Þor­valdur sem bætir því við að sér­fræðingar læri eitt­hvað nýtt af hverju gosi. „Svo bara vonum við að þetta verði bara lítið og pent gos, sem leyfir okkur að fylgjast vel með.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×