Handbolti

Ísland fer á HM í annað sinn

Sindri Sverrisson skrifar
Ísland tapaði fyrir Ungverjalandi í umspili um sæti á HM en komst bakdyraleiðina inn.
Ísland tapaði fyrir Ungverjalandi í umspili um sæti á HM en komst bakdyraleiðina inn. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta var rétt í þessu að fá staðfest sæti á heimsmeistaramótinu sem fram fer á Norðurlöndum 29. nóvember til 17. desember.

Ísland og Austurríki fengu í dag síðustu tvö sætin sem í boði voru á mótinu, sérstök boðssæti (e. wild card) sem að IHF, alþjóða handknattleikssambandið, sér um að úthluta.

Þetta verður í annað sinn sem að stelpurnar okkar spila á HM en þær voru einnig með á mótinu í Brasilíu árið 2011 og enduðu þá í 12. sæti.

Íslenska landsliðið tapaði í umspili um HM-sæti gegn Ungverjalandi í apríl, samtals 59-49, en aðeins Austurríki tapaði með minni mun í umspilinu í Evrópu. Nú er orðið ljóst að þessar tvær þjóðir fá sæti á HM.

HM fer fram í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og verða þessar þjóðir í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla í Gautaborg á fimmtudaginn.

Ísland og Austurríki verða í fjórða og neðsta styrkleikaflokki, sem einu Evrópuþjóðirnar þar. Hér að neðan má sjá styrkleikaflokkana.

Styrkleikaflokkarnir fyrir HM-dráttinn á fimmtudaginn. Ísland er í fjórða og neðsta flokki.IHF

Alls taka 32 þjóðir þátt á HM og verður spilað í átta fjögurra liða riðlum. Þrjú efstu liðin úr hverjum riðli komast áfram í milliriðla, og verða milliriðlarnir fjórir með samtals sex liðum í hverjum riðli. Tvö efstu liðin í hverjum milliriðli komast svo áfram í 8-liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×