Áhuginn á mótinu hefur aukist jafn og þétt, sérstaklega í ljósi góðrar frammistöðu þýska liðsins sem er komið í úrslit.
Í undanúrslitunum í gær vann Ungverjaland Ísland, 37-30, á meðan Þýskaland sigraði Serbíu, 40-30.
Stemmningin í Max Schmeling höllinni í gær á leik Þjóðverja og Serba var frábær. Hún verður væntanlega engu síðri á eftir en það er uppselt á leikinn. Búist er við allt að átta þúsund manns verði viðstaddir hann á eftir.
Bæði Ungverjaland og Þýskaland hafa unnið alla sjö leiki sína á HM og verið mjög sannfærandi.
Ungverjar eru í úrslitum á HM í þessum aldursflokki í fyrsta sinn síðan 1977, eða frá fyrsta mótinu sem var haldið. Þá tapaði Ungverjaland fyrir Sovétríkjunum í úrslitum, 24-10.
Þjóðverjar hafa aftur á móti unnið mótið í tvígang; 2009 og 2011. Þá hefur sameinað Þýskaland einnig unnið ein silfurverðlaun og ein bronsverðlaun á HM U-21 árs. Þá vann Vestur-Þýskaland silfur á HM 1983.
Úrslitaleikur Ungverjalands og Þýskalands hefst klukkan 16:00 að íslenskum tíma.