Innlent

Ráðherra svipti fjölda fólks atvinnu með ólögmætri ákvörðun

Magnús Jochum Pálsson og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa
Heiðrún Lind Marteinsdóttir telur ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, vera ólögmæta og hún fari gegn meðalhófsreglu.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir telur ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, vera ólögmæta og hún fari gegn meðalhófsreglu. Stöð 2

Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir ákvörðun matvælaráðherra um bann við hvalveiðum vera ólögmæta og hún fari gegn meðalhófsreglu. Samtökin líti ákvörðunina alvarlegum augum og hún vænti þess að málinu sé ekki lokið.

„Fyrir það fyrsta er þetta auðvitað fyrirvara- og fordæmalaus ákvörðun af hálfu ráðherra sem er að svipta fjölda fólks og fyrirtækja atvinnu í einu vetfangi,“ sagði Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, aðspurð út í það hvernig ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, blasi við samtökunum. 

„Bara vegna þess eins lítum við málið alvarlegum augum. Því til viðbótar þá teljum við alveg klárt að ákvörðun ráðherra er ólögmæt,“ sagði hún.

„Í fyrsta lagi er ekkert nýtt komið fram í málinu frá því að eftirlitsskýrsla Mast lá fyrir og ráðherra tjáði sig þá með mjög afgerandi hætti um að hún hefði engar heimildir til íhlutunar og mundi ekki gera það, að höfðu samráði við lögfræðinga.“

„Í öðru lagi teljum við líka að það sé alveg klárt í þessu máli að svona ákvörðun fari gegn meðalhófsreglu stjórnskipunar,“ sagði Heiðrún í viðtali við Stöð 2.

Væntir þess að málinu sé „svo sannarlega ekki lokið“

Kristján Loftsson hefur að sögn Heiðrúnar verið í sambandi við SFS. Hún vonar að hann hafi svigrúm til að ráða úr sinni stöðu og væntir þess að málinu sé svo sannarlega ekki lokið.

„Hvalur hf. er félagsmaður SFS og ég hef heyrt í forsvarsmanni þess félags,“ sagði Heiðrún aðsurð hvort hún hefði verið í sambandi við Kristján Loftsson, eiganda Hvals, í kjölfar ákvörðunar ráðherra.

„Ég virði það við Kristján Loftsson á þessum tímapunkti að forgangur hans er að sjálfsögðu að takmarka tjón og huga að þeim starfsmönnum sem voru mættir til vinnu og áttu að mæta til vinnu, í dag og á morgun, 150 manns,“ sagði hún.

„Þannig ég vona að hann hafi svigrúm til þess að ráða fram úr þessari stöðu með sínu fólki og með sínum lögfræðilegu ráðgjöfum. Ég vænti þess líka að þessu máli sé svo sannarlega ekki lokið,“ sagði Heiðrún að lokum.

Mótmæltu fordæmalausri ákvörðun.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi birtu einnig yfirlýsingu á vef sínum í gær sem er titluð „Fordæmalausri ákvörðun matvælaráðherra mótmælt“. Samtökin gera þar alvarlegar athugasemdir við þá stjórnsýslu að stöðva veiðar á langreyðum með dagsfyrirvara.

Þar segir að rök ráðherrans að þessu sinni lúti að dýravelferð og að þær aðferðir sem beitt sé við veiðarnar standist ekki óskilgreindar kröfur um velferð dýra. 

„Hvergi kemur fram í lögum hver séu ásættanleg viðmið í þessum efnum þegar kemur að hvalveiðum og álitamál er hvort hvalveiðar falli undir lög um velferð dýra því um þær gilda sérlög,“ segir í yfirlýsingu SFS.

„Matvælaráðherra sagði sjálfur fyrir um mánuði síðan að ekki væri lagalegur grundvöllur til að stöðva veiðar á langreyðum og til þyrfti lagabreytingar með aðkomu Alþingis. Nú hefur ráðherranum snúist hugur á grundvelli tveggja blaðsíðna álits fagráðs, sem breytir í engu fyrrgreindum rökum,“ segir einnig.

Ráðherra sendi kaldar samfélagslegar kveðjur

Í yfirlýsingunni segir að veiðar á langreyðum séu eins og aðrar veiðar á villtum dýrum, þær feli í sér „áhættu og dauðastríð“ en markmið veiða sé alltaf að fella dýrið, „ef frá eru taldar veiðar til skemmtunar á villtum laxi.“

Samtökin segja að það sé ekki alltaf auðvelt að fella dýr, allra síst á sjó, en leyfishafar hvalveiða hafi „sýnt vilja í verki til þess að leita leiða til að bæta aðferðir við veiðarnar með athugun á nýrri tækni svo draga megi frekar úr þjáningu dýrsins.“

Með ákvörðun sinni skeyti ráðherra engu um „lífsviðurværi þeirra ríflega 150 starfsmanna sem hafa atvinnu af umræddum veiðum, auk allra þeirra sem þjónusta starfsemina, beint og óbeint.“ Hinar samfélagslegu kveðjur séu því kaldar.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á Sjávarútvegsdeginum 2023 ásamt Þorstein Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja.Vísir/Vilhem

Eigi ekki að láta tilfinningar og pólitíska skammtímahagsmuni stjórna

Samtökin segja að það hafi verið stefna íslenskra stjórnvalda um langa hríð að nýta beri sjávarauðlindir við Ísland. Sett hafi verið skýr löggjöf „sem tryggi að veiðarnar séu sjálfbærar, byggðar á vísindalegum grunni, lúti eftirliti og séu í samræmi við alþjóðalög.“

Íslendingar hafi lengi dregið fram lífið með því að nýta þessar auðlindir og atvinnuréttindi við veiðar séu tryggð í stjórnarskrá. Þegar stjórnvöld hrófli við þessum stjórnarskrárvörðu réttindum þurfi mikið að koma til og gæta þurfi meðalhófs „svo fótunum sé ekki kippt undan fólki og velsæld þjóðar í skiptum fyrir pólitíska skammtímahagsmuni.“

Loks segir í yfirlýsingunni að deilan um veiðar á langreyðum snúist ekki lengur um hvað sé forsvaranlegt út frá sjálfbærri nýtingu, heldur hvað fólki finnist. „Það getur verið erfitt að takast á um tilfinningar, enda sýnist sitt hverjum, eins og vonlegt er.“

Stjórnvöld verði hins vegar að horfa til vísindalegra og lagalegra forsendna þegar kemur að veigamiklum ákvörðunum um nýtingu auðlinda, veiða við Ísland, og „láta um leið af sínum eigin tilfinningum og pólitísku skammtímahagsmunum.“


Tengdar fréttir

Stjórnin gæti haltrað á­fram í ást­lausu hjóna­bandi

Stjórnarandstaðan greinir á um hvort að ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um bann við hvalveiðum hafi verið rétt en tímasetningin kom flestum á óvart. Það blasi við að sambúðin á ástlausu stjórnarheimilinu sé orðin krefjandi.

Svandís með dóma á bakinu fyrir ólögmæta stjórnsýslu

Efasemdir hafa vaknað um lögmæti ákvörðunar Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að stöðva hvalveiðar. Þannig hefur Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur efast um réttmæti hennar og sagt að hún standist mögulega ekki kröfur um meðalhófsreglu. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur lýst samskonar efasemdum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×